„Þetta er sigurblanda"

Sigurður Sveinn Sigurðsson leikmaður Skautafélags Akureyrar hefur ekki tölu á hversu margir Íslandsmeistaratitlarnir eru orðnir hjá honum en þeir eru býsna margir. Sigurður varð á dögunum Íslandsmeistari með SA er liðið lagði SR í oddaleik. Hann var að vonum kampakátur í leikslok  enda náði SA að leika sama leik og fyrir tíu árum, að vinna upp 2:0 forystu og landa titlinum en þá var Sigurður einnig í liðinu.

„Þetta er alveg einstaklega sætt og þessi titill er klárlega með þeim sætari. Við erum með alveg gríðarlega sterkt lið. Það eru margir í liðinu núna sem voru fyrir tíu árum þannig að breiddin er góð. Við höfum bæði reynslu og flotta unga stráka. Þetta er bara sigurblanda,” sagði Sigurður við Vikudag eftir leik.

 Sigurður lá ekki á svörum þegar hann var inntur eftir því hvort hann ætlaði sér halda áfram með liðinu. „Ég tek einn áratug í einu. Þannig að það er nóg eftir,” sagði þessi reyndasti íshokkíleikmaður Íslands.

 

Nýjast