„Fylgi L-listans er vissulega að hluta hægt að skýra með óánægjunni á landsvísu með gömlu flokkana, en hún á sér líka skýringar í sérstökum aðstæðum hér í bænum. Oddur Helgi hefur lengi talað þannig í ýmsum málum að það fellur saman við hugmyndir margra, s.s. síkið, miðbærinn, Dalsbrautin og um pólitískan bæjarstjóra. Vissulega hefur hann ekki verið einn um þennan málflutning á síðustu vikum en hann og hans fólk náði að virka trúverðugt í þessu. Eins tel ég það hafa verið skynsamlegt af Oddi að vera ekki sjálfur á oddinum og láta nýja fólkið vera sýnilegra en hann sjálfan. Það finnst mér sýna að hann og hans fólk hefur næmt pólitískt nef, þetta gekk vel upp miðað við hvernig þróunin og stemningin í bænum og í landinu varð," segir Birgir.
Hann segir að á sama hátt hljóti nú að vera runnin upp stund naflaskoðunar hjá gömlu meirihlutaflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. "Það er hreint ekki sjálfgefið að forystufólkið þar haldi áfram og oddvitarnir þurfa að með einhverjum hætti að koma fram og gera upp þennan mikla ósigur, hvort sem það er til að undirbúa frekara pólitískt starf sitt eða til að rýma til fyrir nýju fólki. Hins vegar er spurning hvort endurnýjunin sé ekki orðin næg nú þegar, en fyrir utan Odd Helga Halldórsson eru þau Hermann Jón Tómasson og Sigrún Jakobsdóttir þau einu úr fráfarandi bæjarstjórn sem kosin voru áfram."
Birgir telur að þær kannanir sem Vikudagur gerði fyrir kosningarnar hafi skipt talsverðu máli fyrir úrslitin. "Það var greinilegt í fyrstu könnuninni sem kom tveimur vikum fyrir kosningar að L-listinn var í talsverðum meðbyr og það virðist hafa staðfest L-listann sem farveg fyrir óánægju með gömluflokkana í bænum. Kannanirnar sýndu að L-listinn var orðinn að vagni fyrir mótmæli og breytingar þannig að þeir sem vildu breytingar hoppuðu ótrauðari þar um borð. Þessi sveifla magnaðist því í seinni könnuninni og fullkomnaðist í kosningunum," segir Birgir.