Þegar sýslumaður Þingeyinga þótti mun Klepptækari en doktorinn

Skákáhugamaðurinn og sýslumaðurinn Sigurður Gizurarson t.v., hér reyndar ekki með doktor Sveini Rúna…
Skákáhugamaðurinn og sýslumaðurinn Sigurður Gizurarson t.v., hér reyndar ekki með doktor Sveini Rúnari, heldur Jóni L. Árnasyni stórmeistara í skák.

Eftirfarandi frásögn er ein af þeim sem ómögulegt að vita hvort nokkur, eða hve stór fótur er fyrir. En alltént hefur hún lifað sem þjóðsaga á Húsavík allt frá því hún gerðist. Ef hún yfirhöfuð gerðist nokkurn tíman!

Sveinn Rúnar Hauksson læknir, berjatínslusérfræðingur Íslands, einstakur baráttumaður fyrir réttlæti og mannréttindum í heiminum og ekki síst öflugur talsmaður Palestínumanna, er aðdáunarverður hugsjónamaður, hvernig sem á hann er litið.

Sveinn Rúnar starfaði í nokkur ár sem læknir á Húsavík og kom víða við með jákvæðum hætti í samfélaginu, stóð m.a. fyrir stofnun Friðarhreyfingar þingeyskra kvenna. Á þessum árum var Sveinn af og til  að glíma við illvígan sjúkdóm sem ekki síst leggst á mikla andans- og hæfileikamenn og var hann ýmist í hæstu hæðum eða lægstu lægðum.

Og þar kom að ekki var lengur við unað á Sjúkrahúsinu á Húsavík og ákveðið að senda Svein Rúnar suður til nauðsynlegrar meðferðar, líkast til á Kleppi. Ljúfmennið og mannvinurinn Sigurður Gizurarson, sýslumaður Þingeyinga, var fenginn til að fylgja Sveini suður og vera honum til halds og trausts.

Þegar flugvélin með þá félaga um borð lenti á Reykjavíkurflugvelli, voru þar mættir tveir starfsmenn frá Kleppi til að taka á móti sjúklingnum. Út úr vélinni gengu tveir menn, annar svona heldur úti á Túni og slangrandi sláni, hinn keikur, glaðbeittur og hress og vatt sér að móttökunefndinni, tók í spaðana á piltum  og kynnti sig hátt og snjallt: „Góða kvöldið félagar, Sveinn Rúnar Hauksson, læknir á Húsavík.“

Og sagan segir að þar með hafi starfsmenn Klepps umsvifalaust stokkið á sýslumann Þingeyinga og tekið fastatökum. Óáreiðanlegum heimildum ber hinsvegar ekki saman um hvort Sigurður hafi verið settur í spennitreyju á staðnum. En alltént mun það hafa verið Sveinn Rúnar sjálfur sem leiðrétti þennan leiða misskilning sem hér var upp kominn.

Sem betur fer hefur þeim Sigurði og Sveini Rúnari báðum vegnað vel frá þessum meinta atburði. Enda, eins og fram hefur komið og allir sem til þeirra þekkja vita, aðdáunarverðir andans menn. JS

 


Nýjast