Þankastrik Eipa: Er kirkjan búin á því?

Ég var í páskaboði í gær, alveg hreint glimrandi veislu með tertum, kleinum og alls konar. Gestir voru á öllum aldri, gargandi páskaeggjavímuð börn upp í fólk á áttræðis- og níræðisaldri. Af því að það voru nú einu sinni páskar, heilagasta hátíð kristinna manna þá barst það í tal hvaða atburðir liggja að baki þessum hátíðar- og tyllidögum; svona samkvæmt biblíunni. Það voru allir með það á hreinu hvað hafði gerst á föstudaginn langa, við munum alltaf hvenær við drápum krist. Páskadagur hins vegar vafðist fyrir okkur. Það var engin sem gat verið viss um það. Flestir hölluðust nú að upprisunni, en efinn var sterkur,- einhver spurði, hvað er þá uppstigningardagur ef hann reis upp á páskunum? Þetta var ekki útkljáð fyrr en búið var að gúgla, og jú grunur flestra var staðfestur; þetta er dagurinn sem María og María komu að gröfinni opinni og Jesús var risinn upp frá dauðum. 

Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér stöðu kirkjunnar og reyndar hef ég orðið þess var á fésbók undanfarið að kirkjusókn landsmanna hefur verið til umræðu. Einn benti á það að í páskamessu á Húsavík hafi 16 kirkjugesti verið að finna, annar tekur undir og segir frá því að í einni af stærri sóknum í Reykjavík hafi verið 16 kirkjugestir og tveir prestar. Enn einn greip til fésbókar til að segja frá því að miðað við fréttamyndir frá stöð 2 hafi Dómkirkjan verið hálftóm í páskamessu og sjálfur biskupinn að messa. Það virðist vera sem Íslendingar sjái enga ástæðu til að sækja kirkju nema eiga þangað ákveðið erindi s.s jarðarfarir eða brúðkaup.

Hvað er í gangi? Eru Íslendingar upp til hópa trúlausir eða trúum við bara öðruvísi? Sjálfur stend ég utan þjóðkirkjunnar og persónulega gæti mér ekki staðið meira á sama um afdrif þessarar fornu stofnunar. Hin kristnu gildi eru oft nefnd kirkjunni til varnar, að kirkjan sé nauðsynleg til að standa vörð um þessi gildi. Málið er hins vegar að kirkjan á ekki þessi gildi lengur og raunar ekki kristnin heldur. Fólk flest er vel í stakk búið að tileinka sér náungakærleika, samkennd, hjálpsemi og sterka siðferðiskennd án kirkjunnar og án trúarbragða. Það er ekki þar með sagt að fólk sé algjörlega trúlaust. Ég held að flest fólk beri innra með sér einhverskonar trú eða von eða aðra tilfinningu sem það getur ekki með góðu móti útskýrt eða gefið nafn. Og hvort sem fólk kallar þessa tilfinningu guð eða eitthvað annað, þá er þessi tilfinning innra með fólki hvort heldur sem það fer til kirkju eða fer á tónleika eða bara heldur sig heima hjá sér.

Er þá kirkjan búin að missa hlutverk sitt? Er eini styrkleiki kirkjunnar sá að hún kemur fyrir líkömum okkar þegar við höfum yfirgefið þá? Kirkjan virðist a.m.k. vera orðin stöðnuð, úrelt. Kirkjunnar þjónar, prestarnir eru ekki lengur þeir máttarstólpar samfélagsins sem þeir kannski voru áður og satt best að segja verð ég lítið var við þá.

Það eru þó undantekningar. Mér dettur strax í hug Hildur Eir Bolladóttir og Davíð Þór Jónsson, þau eru bæði prestar og hafa verið dugleg að taka þátt í samfélagsumræðunni. Þau hafa oft veitt gott leiðarljós þegar umræðan hefur þurft á því að halda. Þau hafa einnig verið óhrædd við að gagnrýna kirkjuna þegar þeim hefur þótt hún hafa villst af leið. Þessar tvær manneskjur, þessir tveir prestar, hafa fengið mig til að velta þeim möguleika fyrir mér; hvort kirkjan geti öðlast raunverulegt hlutverk meðal þjóðarinnar á ný og orðið sú stofnun sem Íslendingar treysta, bera virðingu fyrir og líta jafnvel upp til. En til þess að svo geti orðið þarf kirkjan að vera reiðubúin að ganga í gegnum umtalsverðar breytingar og prestastéttin í gegnum mikla endurnýjun.

Þá vaknar spurningin hvort ekki sé kominn tími á aðskilnað ríkis og kirkju en það er annað spursmál sem ég nenni ekki að taka núna. Ég velti því samt reglulega fyrir mér afhverju svo margir nýfrjálshyggjumenn vilja ríghalda í þessa sambúð á sama tíma og liggur fyrir frumvarp um aðskilnað ríkis og áfengis. 

Nýjast