Það eru bátarnir sem gefa menningarhúsinu líf

Það er alltaf stór stund þegar nýr bátur er sjósettur og sl. miðvikudagur var þar engin undantekning, þegar glæsilegur bátur úr áli, sem Sigurður Ólafs Jónsson vélfræðingur  hefur smíðað, var sjósettur við flotbryggjuna hjá menningarhúsinu Hofi. Þetta er vélbátur, tæpir sex metrar að lengd og hefur fengið nafnið Hegri. Sigurður var ekki búinn að taka saman hversu mikill tími hefur farið í smíði bátsins en taldi að í þetta verk hafi farið 700-800 vinnustundir.  

Unga fólkið í kringum Sigurð prófaði bátinn á Pollinum eftir sjósetningu og lét vel af og sjálfur er hann ánægður með smíðina. "Ég er bara alveg harðánægður." Við flotbryggjuna við Hof liggur annar 6 metra bátur úr áli, Hróar, sem Sigurður smíðaði einnig og var sjósettur árið 2004. Hróar er glæsilegur seglbátur og segir Sigurður að mun meiri tími hafi farið í smíða hann en Hegra, enda mun flóknari smíði. Hann hafi m.a. verið heilt sumar með mastrið. Sigurður punktaði bátana saman við smíðina en það var Eggert Benjamínsson sem sá um lokasuðuna.

Faðir Sigurðar, Jón Sigurðsson, var vélfræðingur og útgerðarmaður í Hrísey og hann átti báta sem hétu Hróar og Hegri og fannst Sigurði tilvalið að nota þau nöfn á báta sína. Jón faðir Sigurðar fórst með Hegra, sem var 10-12 tonna bátur, árið 1940. Sigurður segir að faðir sinn hafi tekið þátt í vélvæðingunni sem hófst eftir aldamótin.

Sigurður var kennari í Verkmenntaskólanum á Akureyri í um 20 ár. Hann hélt svo til Bandaríkjanna og lauk þar prófi í skútu- og bátahönnun og er þessi bátasmíði Sigurðar byggð á lokaverkefni hans í Bandaríkjunum. Sigurður hefur ákveðnar skoðanir á skipulaginu við Hof. "Það eru bátarnir sem gefa menningarhúsinu líf, það eru þeir sem hreyfast og eru að koma og fara. Við þurfum því ekkert síki," segir Sigurður. "Við þurfum að gera fallegt í kringum Hof og bæta aðstöðuna fyrir bátana. Þessi flotbryggja er fín en það þarf að gera meira," sagði Sigurður.

Nýjast