Talsverður mótvindur og sýnilega ekki mikill samningsvilji
„Við tökum þessa ákvörðun sameiginlega eftir langa bið eftir svörum, við erum orðin þreytt á biðinn,“ segir Teitur Guðmundsson framkvæmdastjóri Heilsuverndar, en frá og með 1. Desember hættir Heilsugæslan Urðarhvarfi starfsemi á Akureyri, en tveir læknar hafa starfað á hennar vegum á Akureyri.
Heilsugæslan Urðarhvarfi hefur undanfarið árið unnið markvisst að því að geta veitt þjónustu heimilislækna á Akureyri. Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknar voru staðsett í Urðarhvarfi með móttöku, auk þess sinntu þau skjólstæðingum á Akureyri með rafrænum hætti og í gegnum síma, en slíkt er heimilt og óháð staðsetningu.
Skráning á heilsugæslu er frjáls og heilsugæslum er almennt ekki heimilt að meina skjólstæðingum um skráningu, né afskrá þá. Sjúkratryggingar hins vegar meinuðu heilsugæslunni að nýta aðstöðu á Læknastofum Akureyrar til þess að hitta skjólstæðinga í febrúar síðastliðnum. Embætti Landlæknis hafnaði leyfi til rekstrar undir merkjum heilsugæslunnar á þeim forsendum að ekki væri samningur um rekstur heilsugæslustöðvar á Akureyri.
Horft á Akureyri sem útstöð frá Urðarhvarfi
„Þetta hefur verið talsverður mótvindur vog sýnilega ekki mikill samningsvilji. Þá er best að hætta og það varð niðurstaðan. Læknarnir hafa vitaskuld mörg tækifæri og í okkar huga hefur þetta snúist um að fá að veita þjónustu, þeir munu gera það á öðrum vettvangi en okkar úr því sem komið er,“ segir Teitur, en Guðrún Dóra hefur verið ráðin framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
„Við höfum horft á Akureyri sem sel og útstöð frá Urðarhvarfi þar sem komið sé til móts við skráða skjólstæðinga. Þá höfum við einnig sagt að komi til þess að það verði boðinn út rekstur einkarekinnar heilsugæslustöðvar á Akureyri munum við að sjálfsögðu sækjast eftir því.“
Fyrr í haust nýttu læknar Heilsugæslunnar Urðarhverfi vitjanbíl til að heimsækja sjúklinga sína á heimilum þeirra en slíkt er heimilt. Fram kemur í tilkynningu Heilsugæslunnar Urðarhvarfi að illa hafi gengið að fá svör frá Sjúkratryggingum Íslands, þolinmæðin hafi minnkað og óvissa um næstu skref aukist, en nú sé komið að leiðarlokum og þjónustunni verði hætt.