Talsverðar skemmdir á innbúi í bruna á Akureyri í morgun

Rétt fyrir klukkan hálfátta í morgun barst tilkynning um reyk í húsi við Eiðsvallagötu á Akureyri. Þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang höfðu tveir íbúar náð að komast út og sögðu þeir fleiri vera í húsinu og hugsanlega einnig í kjallara hússins. Reykkafarar brutu sér leið inn í húsið og fundu tvo sofandi í svefnherbergi á miðhæð og björguðu þeim út en mikill reykur var þá kominn um allt húsið.   

Grunur lék á um að fleiri væru sofandi í kjallara hússins en talsverður eldur var í þvottahúsi í kjallara.  Fleiri reykkafarar voru þá sendir inn til að leita af fólki en enginn reyndist vera í svefnherbergi í kjallara hússins. Allir fjórir íbúar hússins voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild FSA með snert af reykkeitrun ásamt einum hundi sem komið var til dýralæknis. Líðan fólksins er góð eftir atvikum. Slökkvistarf tók ekki langan tíma en nokkurn tíma tók að reykkræsta húsið. Talsverðar skemmdir urðu á innbúi hússins af völdum elds og reyks.

Nýjast