Tæplega 14% hækkun á flugfargjöldum innanlands milli mánaða

Frá Egilsstaðaflugvelli                        Mynd Austurfrétt
Frá Egilsstaðaflugvelli Mynd Austurfrétt

Tæplega 14% hækkun varð á flugfargjöldum innanlands frá apríl fram í maí í ár. Á sama tíma lækka fargjöld í millilandaflugi. Fargjöldin innanlands hafa hækkað um 50% síðan Loftbrúin kom til sögunnar í september 2020.
Þetta má lesa út úr vísitölum Hagstofu Íslands sem FF7 greindi fyrst frá. Flugfargjöld, bæði innanlands og til útlanda, eru hluti af undirvísitölum neysluverðs.

Miðað við það eru flugfargjöld innanlands sögulega há en vísitala þeirra í maí var 199,5 stig. Miðað við tímabilið frá í janúar árið 2008, þegar núverandi grunnur að henni var gerður með töluna 100 sem viðmið, hefur vísitalan þrisvar sinnum mælst hærri: í apríl 2014 og síðan júní og febrúar 2015. Hæst varð hún 206,7 stig í apríl 2014.

Undanfarið ár hefur vísitalan verið í kringum 170 stig, en tekur nú stökk frá því hún var 175,4 stig í apríl. Þetta þýðir að innanlandsflug hefur hækkað um 13,7% milli mánaða. Gögnin sýna einnig fram á rúmlega 50% hækkun frá því að Loftbrú, opinber niðurgreiðsla á innanlandsflugi, kom til sögunnar í september 2020. Rétt er að hafa í huga að flugfargjöld, þó sérstaklega til útlanda, voru þá í sögulegu lágmarki vegna Covid-faraldursins. Um 50% hækkun er því líka á millilandafluginu síðan.

Á móti hefur vísitala flugs til útlanda haldist á svipuðu reiki eða lækkað undanfarin misseri. Hún var 143,3 stig í maí en 144,9 stig í apríl sem er lækkun um 1%. Þá er vísitala millilandaflugs um 5% lægri en hún var í maí í fyrra en í innanlandsfluginu er hún 14,7% hærri. Vísitala millilandaflugs er nær alltaf hæst í júlí.

Hvernig er vísitalan fundin?

Hjá Hagstofunni fengust þær upplýsingar að vísitala flugs til útlanda sé fengin út frá verði nokkurra flugfélaga til fjölsóttustu áfangastaðanna í Evrópu og Bandaríkjunum. Mælt er ódýrasta verð, án nokkurrar aukaþjónustu, svo sem farangurs.

Tekið er verð fyrir flugferðir yfir heila viku með mismunandi fyrirvara; tvær vikur, fjórar vikur og átta vikur fram í tímann. Meiri fyrirvari vegur þyngra í útreikningunum þar sem líklegra er að utanlandsferðir séu bókaðar með fjögurra eða átta vikna fyrirvara heldur en tveggja vikna.

Vísitala innanlandsflugs er reiknuð á svipaðan máta, nema að vinsælustu áfangastaðirnir eru Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir. Þar eru bókunarfyrirvararnir aðeins tveir, ein vika og fjórar vikur. Lengri fyrirvarinn hefur meira vægi við útreikning vísitölunnar.

Verðin koma til útreiknings í þeim mánuði sem ferð er farin, sem þýðir að verð fyrir maí til útlanda hafa verið sótt í mars, apríl og maí meðan tölur innanlandsflugsins eru frá því í maí og apríl.

 Þessi grein birtist  fyrst á vef Austurfréttar en er birt hér með fullu samþykki höfundar.


Athugasemdir

Nýjast