Tækifæri til að jafna stöðu milli landsbyggða og höfuðborgarsvæðis

Akureyri. Mynd/Ármann Hinrik.
Akureyri. Mynd/Ármann Hinrik.

Akureyrarstofa og SSNE, samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, standa fyrir rafrænu málþingi í dag, fimmtudaginn 28. janúar sem fram fer í Hofi og hefst kl. 13:00. Þar verður ljósinu varpað á ört vaxandi möguleika sem felast í störfum sem eru óháð staðsetningu. Umræða um færanleika fólks og starfa hefur aukist samhliða heimsfaraldrinum, enda hefur aukin fjarvinna opnað augu margra fyrir tækifærum.

Markmið stjórnvalda er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði „án staðsetningar“ árið 2024, það er að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Rætt verður um tækifæri og áskoranir sem felast í flutningi fólks og starfa og sagðar áhugaverðar reynslusögur frá fyrirtækjum og stofnunum. Málþingið er öllum opið en stjórnendur fyrirtækja og stofnana eru sérstaklega hvattir til að taka þá.

Breikka val landsmanna um búsetukosti

Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, segir ekkert leyndarmál að frekar sé horft á flutning af þessum toga sem tækifæri til að jafna stöðu milli landsbyggða og höfuðborgarsvæðis.

„Við viljum gera þetta á jákvæðum nótum og benda á að þetta snýst ekki um einhverja framtíð sem við bíðum eftir heldur bara það sem er verið að gera akkúrat núna og það sem hægt er að gera núna. Á Akureyri væri jákvætt að huga að vinnuaðstöðu fyrir flakkara og þá sem vinna stundum hér og stundum annars staðar eða þá sem vildu flytja til okkar tímabundið og það á sjálfsagt við um fleiri staði. En við höfum mögnuð dæmi hér  um fyrirtæki t.d. í verk- og tæknifræðigeiranum sem eru með tugi starfsmanna í vinnu  sem vinna samhliða kollegum í höfuðstöðvum í Reykjavík í verkefnum um allan heim - hvort sem er á Akureyri, Árnessýslu eða Kína,“ segir Þórgnýr.

Hann bætir við að einn lærdómurinn af Covid-19 þurfi að vera að opinber þjónusta og opinber miðlun megi skipuleggja upp á nýtt með það fyrir augum að breikka val landsmanna um búsetukosti og byggja upp þekkingarkjarna og reynslubanka um allt land.

 

 

 


Nýjast