Uppgötvunum hans á ferðalaginu um leyndardóma ljósmyndanna má líkja við litla eðalsteina sem saman mynda FJÁRSJÓÐ . Fimmtungur ljósmyndaranna tuttugu sem fjallað er um á sýningunni eru konur. Sú þekktasta er Anna Schiöth annar kvenljósmyndari landsins sem rak ljósmyndastofu á Akureyri samfellt í 20 ár. Auk hennar voru þær Engel Jensen, Anna Magnúsdóttir og Guðrún Funk Rasmussen að störfum á þessu tímabili hér í bæ.
Myndir eftir nánast óþekktan ljósmyndara að nafni Árni Stefánsson frá Litla-dal koma nú fram fyrir almenning í fyrsta skipti ásamt merkum frummyndum Tryggva Gunnarssonar sem teknar voru 1865 á Akureyri auk fyrstu myndanna sem teknar voru á Húsavík 1866.
Afkastamestur ljósmyndaranna hvað varðar kynningu á sér og sínum verkum var Vigfús Sigurgeirsson. Hann hélt sýningu í Hamborg 1935, í höfuðborgum Norðurlandanna 1937 og í New York 1939. Hann gaf meðal annars út fyrstu ljósmyndabókina á Íslandi árið 1930. Frummyndir hans af sýningunum utanlands má nú sjá á Minjasafninu. Áhugasamir eru hvattir til að sjá þessa sýningu því hér er í fyrsta skipti komið saman yfirlit yfir ljósmyndun á Eyjafjarðarsvæðinu. Ljósmyndirnar eru úr ljósmyndasafni Minjasafnsins á Akureyri, sem er þriðja stærsta á landinu sinnar tegundar, auk ljósmynda fengnum að láni frá Þjóðminjasafni Íslands.
Minjasafnið er opið í dag, hvítasunnudag og á morgun, annan í hvítasunnu, frá kl 13-16. Sumaropnun hefst 1. Júní en þá er safnið opið daglega frá kl 10-17.