Syngjandi sumarsveifla í Laugarborg

Kirkjukór Grundarsóknar býður til tónlistarveislu að Laugarborg síðasta vetrardag
Kirkjukór Grundarsóknar býður til tónlistarveislu að Laugarborg síðasta vetrardag

Að kvöldi síðasta vetrardags býður Kirkjukór Grundarsóknar í Eyjafjarðasveit til tónlistarveislu í Laugarborg þar sem sannarlega verður syngjandi sumarsveifla í aðalhlutverki.

Á tónleikunum flytur kórinn lög og texta eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni, lög úr söngleikjunum Deleríum Búbónis, Járnhausnum, Allra meina bót og Rjúkandi ráði. Sannkallaðar perlur íslenskrar dægurtónlistar sem allir þekkja, lög á borð við Fröken Reykjavík, Ástardúett og Einu sinni á ágústkvöldi, en Þorvaldur Örn Davíðsson, stjórnandi kórsins gerði nýjar útsetningar af öllum lögunum á tónleikunum af þessu tilefni.

 Valinn maður er í hverju rúmi í þriggja manna hljómsveit á tónleikunum en þeir eru Daníel Þorsteinsson á píanó, Emil Þorri Emilsson á slagverk og Tómas Leó Halldórsson á bassa.

Sem fyrr segir verða tónleikarnir að kvöldi síðasta vetrardags, miðvikudagskvöldið 24. apríl kl. 20 og er frítt inn.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 


Athugasemdir

Nýjast