Svifryksmengun mælist ítrekað yfir mörkum

Svifryksmengun hefur mælst yfir heilsuverndarmörkum í þrígang undanfarið. Mynd/Akureyri.is
Svifryksmengun hefur mælst yfir heilsuverndarmörkum í þrígang undanfarið. Mynd/Akureyri.is

Svifryksmengun á Akureyri hefur þrisvar mælst yfir heilsumörkum það sem af er aprílmánaðar. Bæjaryfirvöld reyna að stemma stigu við vandanum. Vor er í lofti og snjórinn að bráðna sem skýrir að hluta svifryksmengunina.

„Svifryk hefur farið upp í rauðar tölur þrisvar sinnum. Einu sinni í síðustu viku og sl. sunnudag og mánudag. Snjórinn er að fara, kom aftur og fór svo aftur. Þetta er að gera okkur svolítið erfitt fyrir,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

„Við erum að þvo göturnar til að stemma stigu við menguninnni. En það tekur tíma og svo er álitamál hvenær eigi að fara í það á vorin. Það er dýrt og mjög óheppilegt að þrífa göturnar en svo kemur snjórinn aftur og þá þarf að dreifa hálkuvörn.“

Þá hefur bærinn brugðið á það ráð að sprauta sjó á göturnar til að binda rykið. „Það virkar nokkuð vel. En svo erum við alltaf að nota meira og meira af góðum hálkuvörnum, harðari efni sem molna síður niður,“ segir Andri.

Ökumenn hvattir á sumardekkin

Vitað er að nagladekk valda aukinni svifryksmengun. Í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar eru ökumenn minntir á að notkun nagladekkja er bönnuð frá og með 15. apríl til og með 31. október nema þeirra sé þörf vegna akstursaðstæðna.

„Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna með því að slíta malbikið hundraðfalt hraðar en önnur dekk. Einnig auka þau eldsneytiskostnað bifreiða, valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum með mengun. Tökum því nagladekkin úr umferð eigi síðar en 15. apríl,“ segir á vef bæjarins


Nýjast