„Það er oft stutt á milli á að vera hetja eða skúrkur en ég var hetjan í dag,” sagði Sveinbjörn við Vikudag eftir leik. „Það er samt ekkert hægt að eigna þessari einu markvörslu sigurinn. Við vorum yfir frá fyrstu mínútu en vorum oft klaufar í sókninni og hentum boltanum oft frá okkur. En með mikilli heppni náðum við að klára þetta í kvöld,” sagði Sveinbjörn.
Sveinbjörn hafði helstu skyttu FH, Ólaf Guðmundsson, algjörlega í vasanum í kvöld og lét Ólaf líta ansi illa út á köflum. „Hann er svona leikmaður sem skorar stundum 12-13 mörk í leik en aðra leiki er hann ekki að hitta. Ég bara vinn mína heimavinnu og það skilar nokkrum fínum boltum,” sagði Sveinbjörn.
Aðspurður hvort Akureyri sé með betra lið en FH segir Sveinbjörn: „Samkvæmt úrslitum síðustu tveggja leikja erum við betri. Við höfum allavega verið með þá í vasanum hingað til í vetur og ætlum okkur að vera með þá út veturinn.”
Einar Andri Einarsson, annar þjálfari FH liðsins, var ósáttur í leikslok í spjalli við Vikudag og fannst að sitt lið hefði átt að hirða annað stigið.
„Við byrjuðum leikinn mjög illa, fyrstu korterið var skelfilegt. Við erum ragir í sókninni og hræddir til að byrja með og létum þá lemja okkur út úr leiknum. Við fórum hins vegar að taka á móti þegar það fór að líða á. Við spiluðum vel í seinni hálfleik og gáfumst aldrei upp en við vorum klaufar í lokin að fá ekki stig,” sagði Einar, sem var ekki sáttur við dómarana undir lok leiksins.
„Við áttum að fá ruðning þegar Guðmundur (Hólmar Helgason) skoraði næst síðasta eða síðasta markið. Svo fá Akureyringar víti þegar það er brotið á punktalínu. Þessi litlu atriði voru að falla á móti okkur og það vantaði herslu muninn," sagði Einar.