Sveinbjörn hetja Akureyrar í sigri gegn FH

Markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson var hetja Akureyrar í kvöld sem lagði FH að velli í Íþróttahöllinni á Akureyri, 25:24, í N1-deild karla í handbolta. Leikurinn í kvöld var nánast endurtekning frá bikarleik liðanna sl. mánudagskvöld, þar sem Akureyri hafði betur með tveimur mörkum. Líkt og þá höfðu Akureyringar þægilega forystu nánast allan leikinn í kvöld en gestirnir frá Hafnarfirði neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark undir lokin. Lengra komust þeir þó ekki og Akureyri er ósigrað á árinu með sex stiga forskot í deildinni.

Eftir nokkuð jafnar fyrstu tíu mínútur tóku Akureyringar að síga framúr. Það var ekki síst að þakka góðri vörn og mögnuðum Sveinbirni Péturssyni í markinu, en Sveinbjörn varði heil 14 skot í fyrri hálfleik og hafði helstu skyttu FH-inga, Ólaf Guðmundsson, algjörlega í vasanum en Ólafur skaut einnig ítrekað tréverkið. Akureyringar náðu mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik, 13:6. Líkt og í bikarleiknum var sóknarleikurinn að klikka hjá gestunum, liðið skaut illa á markið og átti í mesta basli með vörn heimamanna. FH náði þó að laga stöðuna fyrir hálfleik með því að skora þrjú síðustu mörkin. Staðan leikhléi, 13:9.

Akureyri byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og jók muninn í sex mörk, 16:10 og 19:13 yfir eftir tíu mínútna leik. FH neitaði að gefast upp og söxuðu á forskot heimamanna. Oddur Gretarsson sneri ökkla snemma í seinni hálfleik og yfirgaf völlinn. Sveinbjörn fór á bekkinn og Stefán Guðnason kom í markið. Ólafur Guðmundsson nýtti sér fjarveru Sveinbjörns og fór ham og gestirnir minnkuðu muninn í eitt mark þegar skammt var til leiksloka.

Þegar ein og half mínúta var eftir var staðan 25:24 fyrir Akureyri. Norðanmenn í sókn og Guðmundur Hólmar Helgason hefði getað farið langt með að klára leikinn fyrir heimamenn en Pálmar Pétursson sá við honum í marki gestanna. FH-ingar héldu í sókn og þegar um fimm sekúndur voru eftir fékk Ólafur Guðmundsson dauðafæri en Sveinbjörn kórónaði leik sinn í kvöld, og þá sérstaklega gegn Ólafi, og varði með tilþrifum. Baldvin Þorsteinsson tók frákastið en skaut yfir og Akureyringar fögnuðu vel og innilega í leikslok. 

Að 14. umferðum loknum er Akureyri með 25 stig í efsta sæti en FH hefur 17 stig í fjórða sætinu og því mætast liðin að nýju á mánudagskvöldið kemur. Þar sem Haukar lögðu Fram í kvöld eru norðanmenn með sex stiga forskot í deildinni.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9 (4 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 4, Oddur Gretarsson 4, Daníel Örn Einarsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Guðlaugur Arnarsson 1, Heimir Örn Árnason 1, Bergvin Þór Gíslason 1.

 

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19, Stefán Guðnason 3

 

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7 (5 úr vítum), Ólafur Guðmundsson 5, Örn Ingi Bjarkarson 4, Baldvin Þorsteinsson 3, Atli Rúnar Steinþórsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Ari Magnús Þorgeirsson 2.

Varin skot: Pálmar Pétursson 15.

Nýjast