„Mig hafði einhvern tíma dreymt um að fara á læknisfræði en sem betur fer varð ekki af því," segir hún. Fljótlega eftir stúdentsprófið fór hún í áhugasviðskönnun hjá Valgerði Magnúsdóttur sem kvatti hana eindregið til að verða prestur eftir að hafa lesið úr niðurstöðum könnunarinnar. „En ég var nú á þeim tíma alls ekki á því að það starf ætti við mig," segir Arna. Hún hafði öll sín unglings- og menntaskólaár tekið virkan þátt í kristilegu starfi, var í Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju og KFUM og K. "Það var mitt áhugamál, þetta var afskaplega góður félagsskapur, það var þroskandi að taka þátt í þessu starfi, lærdómsríkt og gefandi og mjög gott veganesti út í lífið," segir hún.
Eftir stúdentprófið starfaði hún sem læknaritari á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri um skeið, og fór í Biblíuskóla á Eyjólfsstöðum, en haustið 1990 tók hún ákvörðun um að hefja nám við guðfræðideild Háskóla Íslands. Því lauk hún haustið 1996, en hafði ári fyrr flutt norður til Akureyrar þar sem þáverandi maður hennar hafði fengið kennarastöðu. Sjálf skrifaði hún lokaritgerð sína norðan heiða og þýddi þess á milli ástarsögur.
„Ég fór svo að starfa vð Akureyrarkirkju, var æskulýðsfulltrúi og sinnti æskulýðsstarfi, sá um sunnudagaskólann og líka heimsóknarþjónustu á Dvalarheimilinu Hlíð," segir Arna um störf sín á Akureyri á þeim tíma. Þá starfaði hún einnig við Háskólann á Akureyri, sá m.a. um skipulagningu sumarháskóla sem þá var í boði og eins starfaði hún fyrir Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri þar sem skipulagning ráðstefna af ýmsu tagi var m.a. á hennar könnu sem og einnig að sjá um endurmenntun.
Árið 2000 vígðist Arna til Raufarhafnarprestakalls en því þjónaði hún næstu 6 ár. „Það var mikið gæfuskref í lífi mínu. Þetta var mjög góður tími og gefandi, þarna kynnist ég góðu fólki." Á þessum árum kynntist hún eiginmanni sínum, Elvari Árna Lund, sem var sveitarstjóri í Öxarfirði og bjó hún síðustu tvo ár sín á norðausturhorninu, á Kópaskeri. „Svo þróuðust málin þannig að störf okkar beggja voru lögð niður, bæði prestakallið og sveitarfélagið voru sameinuð og því var ekki þörf fyrir okkar þjónustu fyrir austan, þannig að leiðin lá suður til Reykjavíkur," segir Arna.
Hún hóf störf sem prestur við Langholtskirkju og Bústaðakirkju, í hálfu starfi við hvora kirkju, en um tilraunaverkefni var að ræða. Áður en gengið hafði verið frá málum með tilheyrandi lagabreytingum skall kreppan á og þegar tilraunatímabili var lokið fundust ekki peningar til að halda úti þessu starfi. „Þetta voru stórir söfnuðir og mjög ólíkt mínu fyrra starfi fyrir austan þar sem söfnuðurinn var fámennur, en tíminn syðra engu að síður mjög góður," segir Arna. Nú hlakkar hún sem og fjölskyldan öll til að koma norður á ný, en þau Elvar eiga tvo drengi, Níels Árna, 5 ára og Benedikt Árna, 2ja ára. Þá á hún einnig uppkomin son, Loga 22 ára gamlan. Elvar er sjávarútvegsfræðingur með meistaragráðu í verkefnastjórnun og starfar hann ásamt öðrum við útflutning á sjávarútvegsvörum. „Hann flytur sitt starf með sér norður og er afskaplega glaður að komast nær sínum heimahögum, en við höfum aðgang að húsi á Leirhafnartorfunni, rétt utan við Kópasker, sem við sjáum fram á að geta nýtt betur á næstu árum," segir Arna.