Stóraukinn fjárstuðningur til stafrænna smiðja

Mynd frá Stjórnarráði Íslands. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðh…
Mynd frá Stjórnarráði Íslands. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Fulltrúar stafrænna smiðja um land allt á skjánum.

Nýverið var skrifað undir samstarfssamning milli FabEy, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis um styrk til reksturs FaLab smiðjunnar sem staðsett er í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Rekstraraðilar FabLab á Akureyri eru Akureyrarbær, SÍMEY og Verkmenntaskólinn á Akureyri og fór undirritun fram í gegnum fjarfund. Stafrænar Fab-Lab smiðjur eru nýsköpunarsmiðjur sem veita notendum tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Alls eru stafræktar átta Fab-Lab smiðjur á landinu og eru þær flestar starfræktar í skólum og eru mikilvægur liður í að efla nýsköpunarhugsun á öllum skólastigum. Starfsemi þeirra miðar að því að þjónusta nemendur, frumkvöðla, fyrirtæki og almenning við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Samkomulagið sem var undirritað er mikilvægt skref sem mun efla nýsköpun og aðgengi að stafrænum smiðjum fyrir allt landið og miðar að því að tengja starf smiðjanna betur við svæðisbundna lykilaðila á sviði menntunar, rannsókna, menningar og atvinnulífs.

Þá er rekstrargrundvöllur þeirra styrktur og umgjörð þeirra fest betur í sessi með skýrari aðkomu ráðuneytanna tveggja, sveitarfélaga á hverjum stað og fræðslustofnana.  Framlag ráðuneytanna til stafrænna smiðja um land allt verður alls 84 milljónir kr. á árinu 2021, þ.e. 38 milljónir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og 46 milljónir kr. frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

/epe 


Athugasemdir

Nýjast