Stór helgi framundan í blakinu

Það er stór helgi framundan á Íslandsmótinu í blaki í karla-og kvennaflokki þegar lokaumferðir MIKASA-deildarinnar fara fram. Í karlaflokki freista nýkrýndir bikarmeistarar í KA þess að landa sínum öðrum titli á innan við viku er liðið sækir Fylki og HK heim.

HK er á toppi deildarinnar með 27 stig en KA í öðru sæti með 25 stig, en á leik til góða. Sá leikur fer fram í kvöld er KA sækir Fylki heim. Vinni KA-menn Fylki í kvöld verða HK og KA jöfn að stigum og þá munu liðin leika hreinan úrslitaleik á morgun um deildarmeistaratitilinn.

Í kvennaflokki kljást Þróttur N. og HK um deildarmeistaratitilinn en liðin mætast um helgina. KA er hins vegar í baráttunni við Ými um þriðja sæti deildarinnar og sækir Stjörnuna heim á morgun.

 

Nýjast