Stór Evrópustyrkur til Verkmenntaskólans á Akureyri
Ástæðan fyrir styrkveitinunni til VMA er sú að þema verkefnisins fellur mjög vel að tilgangi áætlunarinnar; að auka menntunarstig og möguleika fólks á verknámi, að bæta möguleika þeirra sem ekki finna sig í hefðbundnu bóknámi og síðast en ekki síst að verkefnið er samstarf skóla og atvinnulífs. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem VMA fær styrk úr Leonardo hluta Menntaáætlun Evrópusambandsins. Bæði nemendur og kennarar hafa fengið styrki í starfsþjálfun á undanförnum árum en það eru mun minni styrkir en þessi styrkur. Það hefur skilað góðum árangri og er þessi stóri styrkur óbeint framhald af þessu samstarfi Menntaáætlunar Evrópusambandsins á Íslandi og skólans.
Menntaáætlun Evrópusambandsins hefur frá árinu 1994 í gegnum EES -samninginn veitt yfir þrettán þúsund íslenskum einstaklingum á öllum skólastigum styrk til að auka við þekkingu sína. Flestir þessara styrkja eru veittir á samkeppnisgrundvelli og sýnir að Íslendingar geta tekið þátt í evrópsku samstarfi á jafnréttisgrundvelli. Þessi árangur VMA sýnir að íslenskir skólar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta náð árangri í Evrópusamstarfi þótt umræðan á Íslandi sé stundum þannig að smæð okkar og fjarlægð frá Evrópu sé einhver hindrun í svona fjölþjóðlegu samstarfi. Staðreyndin er sú að við höfum fullt erindi í svona samstarf.
Þrátt fyrir að fjárhagslegur ávinningur af þessu samstarfi sé mikilvægur þá eru tengsl og þekking sem fæst með svona samstarfi ekki síður mikilvægt. Það hefur árangur Íslendinga í rannsóknar- og þróunarsamstarfi og menntaáætlun ESB sýnt og sannað undanfarin sextán ár. Þetta kemur fram í grein sem Andrés Pétursson, verkefnastjóri Leónardo yfirfærsluverkefna hjá Menntaáætlun Evrópusambandsins á Íslandi og starfsmaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, skrifar í Vikudag í gær.