Stjórnvöld gera í því að bregða fyrir okkur fæti

Garðar Ólason útgerðarmaður í Grímsey er allt annað en sáttur við tillögur stjórnarflokkanna um stjórnun fiskveiða. Garðar stýrir fyrirtækinu Sigurbirni fiskverkun, sem gerir út þrjá báta og rekur einu fiskvinnsuna í eynni. Fimmtán manns starfa hjá fyrirtækinu, þannig að um er að ræða stærsta vinnustaðinn í Grímsey.  

„Við höfum keypt nánast allan okkar kvóta á frjálsum markaði með tilheyrandi lántökum. Fyrir um þremur árum keyptum við til dæmis 220 tonna kvóta og höfum í rauninni aldrei fengið að veiða  hann, þar sem veiðiheimildir fyrirtækisins voru skertar skömmu síðar um nánast sömu tölu. Hrunið setti svo stórt strik í reikninginn þar sem lánin vegna kaupanna eru í erlendri mynt. Og núna tala fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna um að fyrna kvótann á fimmtán árum. Ég sé ekki fyrir mér að hægt sé að reka sjávarútvegsfyrirtæki þegar skilaboðin eru þessi."

Kvóti Sigurbjörns fiskverkunar er í dag um 800 tonn. Garðar segist ekki vera bjartsýnn á framtíðina. „Hver einasta fjölskylda í Grímsey hefur lifibrauð sitt af fiskveiðum og vinnslu, þannig að hagsmunirnir eru gríðarlegir. Héðan er stutt á fengsæl fiskimið en það er engu líkara en að stjórnvöld geri í því að bregða fyrir okkur fæti. Fyrirtæki eins og okkar, sem hefur keypt nánast allar sínar veiðiheimildir á frjálsum markaði, getur varla átt fyrir sér bjarta framtíð verði þessar hugmyndir að veruleika. Það er bara svo einfalt," segir Garðar Ólason útgerðarmaður í Grímsey.

Nýjast