Á setningunni afhendir Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, Stjórnlagaráði skýrslu nefndarinnar þar sem fram koma meðal annars tillögur nefndarinnar um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefnd, sem var kjörin af Alþingi 16. júní 2010, hefur þar með lokið störfum. Verkefni nefndarinnar voru m.a. að taka saman gagnasafn um stjórnarskrármálefni, standa að Þjóðfundi 2010 um stjórnarskrána og leggja fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskrá. Eftir setningu Stjórnlagaráðs mun stjórnlaganefnd kynna fjölmiðlum efni skýrslunnar. Setningin er opin almenningi meðan húsrúm leyfir.
Vefur Stjórnlagaráðs www.stjornlagarad.is hefur verið opnaður en þar er hægt að nálgast allar helstu upplýsingar um ráðið og gagnasafn stjórnlaganefndar. Skýrsla stjórnlaganefndar verður aðgengileg á vefnum eftir setningu Stjórnlagaráðs.