Stjórn Þórs vill að framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar

Stjórn Íþróttafélagsins Þórs hefur sent bréf til Hermanns Jóns Tómassonar formanns bæjarráðs Akureyrar og óskað eftir því að framkvæmdir vegna uppbyggingar frjálsíþrótta- og knattspyrnuaðstöðu á aðalsvæði félagsins verði stöðvaðar nú þegar. Á fundi stjórnar Þórs með stjórn UFA staðfestist mikill ágreiningur um staðsetningu og uppröðun á stökksvæðum framan við stúkuna, sem að mati stjórnar Þórs skapar allt of mikla fjarlægð áhorfenda við knattspyrnuvöllinn, sem nú er samkvæmt áætlunum 24,29 metrar. Þessi vegalengd sem hér er nefnd á sér enga hliðstæðu hérlendis. Er það ósk stjórnar Íþróttafélagsins Þórs að bæjaryfirvöld leiti allra leiða til að minnka þessa fjarlægð. Í ljósi þessarar uppbyggingar sem hér er hafin og er mjög metnaðarfull vill stjórn Íþróttafélagsins Þórs trúa því að sú uppbygging sem snýr að knattspyrnu verði með hagsmuni og framtíð knattspyrnunnar í huga ekki síður en frjálsíþróttafólks.

Nýjast