Stjórn SSNV lýsir undrun á framgöngu Akureyrarbæjar

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var lögð fram bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá 15. mars sl. Þar lýsir stjórn SSNV undrun á framgöngu Akureyrarbæjar í umfjöllun um lagningu svonefndrar Svínavatnsleiðar/Húnavallaleiðar sem gengur freklega gegn rétti og hagsmunum viðkomandi sveitarfélaga.  

Á fundi bæjarráðs gerðu Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Eiríkur Björn Björgvinsson gerðu grein fyrir fundi sínum með fulltrúum Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitafélagsins Skagastrandar vegna bókunar bæjarráðs um lagningu Húnavallabrautar og styttingar á Þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur. "Fundurinn var málefnalegur og upplýsandi. Fulltrúar Akureyrarbæjar komu sjónarmiðum sínum á framfæri m.a. um lækkun flutningskostnaðar og að búast megi við um tæplega þrefaldri fækkun umferðaróhappa miðað við núverandi vegarkafla. Fulltrúar Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagastrandar komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðilar eru sammála því að auka samstarf og samskipti milli sveitarfélaganna í framtíðinni," segir í bókun bæjarráðs Akureyrar frá því morgun.  Ráðið telur jafnframt mikilvægt að skoðun fyrirtækja, einstaklinga og sveitarfélagsins fái að koma fram, en virðir að sjálfsögðu skipulagsvald sveitarfélaganna.

Í áðurnefndri bókun stjórnar SSNV segir ennfremur: Stjórn SSNV ítrekar fyrri ályktanir sem og ályktun 18. ársþings SSNV um að lögum samkvæmt fara sveitarfélögin með skipulagsvaldið. Stjórnin skorar á öll sveitarfélög landsins að standa saman vörð um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í skipulagsmálum . Stjórnin beinir því til alþingismanna að leggjast gegn öllum áformum um lagasetningar sem ganga gegn þeim rétti.

Nýjast