Stjarnan lagði Þór/KA í undanúrslitum Lengjubikarins

Það verður Stjarnan sem mætir Val í Kórnum á sunnudaginn í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í knattspyrnu en það var ljóst eftir 3:1 sigur liðsins á Þór/KA í Boganum í dag. Þór/KA komst 1:0 yfir með marki frá Örnu Sif Ásgrímsdóttur en þrjú mörk frá þeim Soffíu Arnþrúði, Ashley Barnes og Ingu Birnu Friðjónsdóttur tryggði sigurinn fyrir Stjörnuna.  

Þór/KA varð fyrir blóðtöku á 70. mínútu leiksins en þá braut markvörður Stjörnunnar illa á Mateju Zver, sem varð að yfirgefa völlinn fyrir vikið. Ekki er vitað hversu slæm meiðsli Mateju eru en um er að ræða meiðsli á liðböndum í ökkla og ljóst að Mateja verður frá fyrstu leikina í Pepsi-deildinni sem hefst um miðjan maí.  

„Við erum að vona að þetta sé bara tognun en hún fer sennilega í röntgenmyndatöku í kvöld og það skýrist betur hversu alvarlegt þetta er,” sagði Viðar Sigurjónsson, þjálfari Þórs/KA, í samtali við Vikudag í kvöld.

Nýjast