Stefnt að stækkun aflþynnuverk- smiðju Becromal í Krossanesi
Skipulagnefnd samþykkti jafnframt að fela skipulagsstjóra að óska eftir við hönnuð Krossanesbrautar að skoða möguleika á umbeðinni færslu götunnar og áætlun um umframkostnað miðað við núverandi hönnun götunnar. Edward H. Huijbens V-lista óskaði bókað á fundi skipulagsnefndar: "Af gefnu tilefni og í ljósi ítrekaðra bókana V-lista árin 2007, 2008 og 2009 í bæði skipulagnefnd og bæjarstjórn, þá telur fulltrúi V-lista einsýnt að meta þarf heildrænt umhverfisáhrif þessarar verksmiðju með öllum stækkunaráformum og tryggt sé að öllum skilyrðum starfsleyfis sé framfylgt."
Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri Strokks Energy, sem á stóran hlut í verksmiðju Becromal við Krossanes, segir að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að verksmiðjan yrði stækkuð og að markvisst hafi verið unnið að þeirri uppbyggingu. Hugmyndirnar ganga út að stækka núverandi verksmiðjubyggingu á svæðinu um ríflega 350 fermetra til norðausturs. Eyþór segir að frá því hafist var handa við uppbyggingu verksmiðju Becromal við Krossanes hafi verið gert ráð fyrir að unnt yrði að tvöfalda hana frá því sem nú er. Undirbúningur að stækkun sé nú hafin af fullum krafti, m.a. með því að sækja um stærri lóð. Þá hafi í samningi um raforkukaup við Landsvirkjun einnig verið gert ráð fyrir að verksmiðjan myndi kaupa meira rafmagn til starfsemi sinnar.
„Við stefnum að því að stækka verksmiðjuna umtalsvert á næstu misserum og undirbúningur vegna þess stendur nú yfir, málin eru komin í ákveðinn farveg, m.a. varðandi lóðamál og raforkukaup þó svo að endanleg ákvörðun um stækkun liggi ekki fyrir. Hún verður hins vegar tekin á næstunni og við vinnum að þessum málum í samvinnu við bæði Landsvirkjun og bæjaryfirvöld á Akureyri," segir Eyþór.
Framleiðslugetan aukist um 50%
Hann segir að um jákvætt skref sé að ræða í atvinnuuppbyggingu í bænum, en samkvæmt áætlun fyrirtækisins er gert ráð fyrir að framleiðslugetan aukist um 50% á næstu tveimur árum. „Reksturinn gengur vel og er á áætlun," segir Eyþór og getur þess jafnframt að menn hafi náð tökum á þeim vandamálum sem upp komu á liðnum vetri varðandi umhverfismál. „Við tókum þetta mjög alvarlega og höfum komið í veg fyrir að atvik af þessu tagi komi upp aftur," segir hann. Um umhverfisvæna stóriðju sé að ræða í þeim skilningi að engum koltvísýringi er hleypt út í andrúmsloftið, einungs hrein vatnsgufa komi frá verksmiðjunni. „Við tókum strax á þessum umhverfismálum af festu og störfum nú í góðri sátt við umhverfið," segir Eyþór.