Stefna að vinnslu á stórþara á Húsavík

Stórþari. Aðsend mynd
Stórþari. Aðsend mynd

Á fundi byggðarráðs Norðurþings var tekið fyrir bréf frá Islands Þari ehf. þar sem fyrirtækið lýsir yfir að Húsavík sé þeirra fyrsti kostur til uppsetningar á þaravinnslu. Óskað er eftir aðstoð og samstarfi sveitarfélagsins við ákvörðun endanlegrar staðsetningar og skipulagningu þeirra þátta sem nauðsynlegir eru til að byggja upp starfsemina á Húsavík.

Byggðarráð tók jákvætt í erindið og hefur falið sveitarstjóra að eiga samtal við fyrirtækið um atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Á vef Fiskifrétta í júní kom fram að undirbúningur að vinnslu á stórþara úti fyrir Norðurlandi miði vel en að sögn Snæbjörns Sigurðarsonar, eins af forsprökkum verkefnisins, standa vonir til þess að vinnsla geti hafist á haustmánuðum. Stefnt sé að því  að sækja 35.000 tonn af stórþara þegar vinnsla er komin í full afköst, þurrka hann með jarðvarma og vinna úr honum alginöt sem er eftirsótt vara í lyfja- og matvælaiðnaði. Stefnt er að fullvinnslu hér á  landi. Verkefnið kallar á fjárfestingu upp á rúma tvo milljarða króna.

Þá kemur fram að Norðmenn hafa stundað vinnslu á stórþara í yfir 50 ár nánast einir þjóða. Þeir vinna úr 150-200 þúsund tonnum á ári.  Þar hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum vinnslunnar á þarann og lífríkið í heild. Stórþari vex einungis í Norður-Atlantshafi og Norðmenn hafa nánast verið allsráðandi á markaði með afurðir úr tegundinni.

„Drifkrafturinn í verkefninu er lyfjageirinn. Við erum í samstarfi við erlenda aðila sem hafa sterkar tengingar inn á markaðinn. Í þaranum eru algínöt sem eru þekkt innihaldsefni í magasýrulyfjum, svo dæmi sé tekið. Alginöt er verðmæt afurð og það er mikil eftirspurn eftir þeim. Noregur hefur verið í einstakri stöðu Miðað við okkar útreikninga er veltan af vinnslu úr 35.000 tonnum af þara á milli 2,5-3 milljarðar króna á ári. Þá er einungis miðað við algínötin en auk þeirra er fjöldi annarra lífvirkra efna í þara sem kunna að skila enn verðmætari afurðum,“ segir Snæbjörn í samtali við Fiskifréttir.

Horft hefur verið til Húsavíkur með staðsetningu vinnslunnar, ekki síst í ljósi mikils jarðhita þar. Útlit er fyrir að starfseminni fylgi 80 stöðugildi í landi og 20 á sjó.


Athugasemdir

Nýjast