Stefán hetja Akureyrar í dramatískum sigri gegn Fram

Markvörðurinn stóri og stæðilegi Stefán Guðnason var hetja Akureyrar í dag sem sigraði Fram 32:31 í dramatískum leik í Framhúsinu í N1-deild karla í handbolta. Framarar höfðu yfirhöndina lengst af en úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Stefán kom inn á um miðjan seinni hálfleik og varði 5 skot, þar af 2 víti og eitt skotið varði hann á ögurstundu en Framarar hefðu þá getað jafnað leikinn í 32:32 þegar um 13 sekúndur voru eftir.

Fram hafði 17:13 forskot í hálfleik en Akureyringar gáfust aldrei upp og fögnuðu ótrúlegum sigri. Athygli vakti að aðalmarkvörður Akureyrar, Sveinbjörn Pétursson, hljóp inn í klefa um miðjan seinni hálfleik eftir að hafa fengið klaufalegt mark á sig. Umræddur Stefán leysti hann hins vegar af með sóma. Guðmundur Hólmar Helgason var heitur í sóknarleik Akureyrar og skoraði 12 mörk.

Með sigrinum er Akureyri komið upp að hlið FH á toppi deildarinnar með sex stig og hefur unnið alla þrjá leiki sína. Framarar hafa áfram 2 stig í fimmta sæti.

Nýjast