Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður á Akureyri segir að til standi að gera verulegar breytingar á húsnæðinu og væntir þess að framkvæmdir við endurbætur hefjist næsta haust. Úttekt á húsnæðinu er þegar hafin. „Þetta verða umfangsmiklar breytingar sem hér verða gerðar," segir sýslumaður. Meðal annars verður kjallari hússins tekin í gegn og þar er ráðgert að koma upp skjalageymslu. Starfsemi á vegum sýslumannsembættisins verður á fyrstu hæð hússins og að hluta til á annarri hæð, en Þjóðskrá fær til afnota hluta af þeirri hæð og eins þá þriðju. Héraðsdómur Norðurlands eystra verður áfram á fjórðu hæð hússins. Björn Jósef segir að um stóra framkvæmd verði að ræða og geti kostnaður numi um 150-200 milljónum króna. Það sé þó alls ekki ljóst á þessari stundu þar sem úttekt á húsinu sé ekki lokið og enn viti menn ekki nákvæmlega hvað gera þurfi, t.d. varðandi lagnir, glugga og fleira.
Haukur Ingibergsson framkvæmdastjóri Þjóðskrár segir að þær stofnanir sem fyrirhugað er að deili húsnæði við Hafnarstræti 107 heyri allar undir innanríkisráðuneytið og muni njóta hagræðis af því að vera undir sama þaki. Nú starfa 11 manns á vegum stofnunarinnar á Akureyri, en hlutverk Þjóðskrár Íslands er að halda fasteignaskrá og þjóðskrá, ákveða brunabótamat og fasteignamat og annast rannsóknir á fasteignamarkaðinum. Stofnunin sér einnig um rekstur starfs- og upplýsingakerfa fyrir sýslumenn og sveitarfélög og gefur út vegabréf. „Við sjáum ákveðin tækifæri í því að efla og auka starfsemina fyrir norðan þegar við komumst í hentugra og rúmbetra húsnæði," segir Haukur. Nefnir hann að stofnunin þurfi á stærra húsnæði að halda, m.a. til að hýsa skjalageymslu og horfi menn til þess að aukið rými fáist nú í væntanlegu nýju húsnæði á Akureyri. „Við getum ráð fyrir að geta fjölgað starfsfólki fyrir norðan eftir þessar fyrirhuguðu breytingar," segir Haukur. Ekki er ljóst hvenær af flutningi verði, húsnæðið verður lagfært og endurhannað næsta vetur og má gera ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið næsta vor eða sumar.