Stærstu tækifærin liggja í aukinni vetrarferðaþjónustu

Heildarumsvif ferðaþjónustunnar hafa aldrei verið meiri og voru við síðustu mælingar 209 milljarðar króna. Ferðaþjónustan er á sama tíma burðarás í gjaldeyrissköpun sem nú mælist u.þ.b. 20% af heildargjaldeyrissköpun þjóðarinnar. Það skiptir því miklu að hlúa að rekstrarumhverfi hennar svo hún geti í framtíðinni orðið enn verðmætari og þar liggja stærstu tækifærin í aukinni vetrarferðaþjónustu.  

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem haldinn var í Hofi á Akureyri í gær. Þar segir ennfremur: "Það eru þó alvarlegar blikur á lofti sem eru minnkandi eftirspurn vegna minni kaupmáttar, gegndarlausar skattahækkanir sem draga mátt úr fyrirtækjunum, síaukin gjaldtaka hins opinbera og stöðnun í fjárfestingum í atvinnulífinu. Ferðaþjónustan á mikið undir því að atvinnulífið í heild blómstri en þar ríkir víðast hvar stöðnun og óvissa.  Mikilvægt er að blása til sóknar.  Þar er mikilvægast að gera 3 ára kjarasamning sem leiði til aukins kaupmáttar og fjölgunar atvinnutækifæra og stjórnvöld fari í samstarf við aðila vinnumarkaðarins um nauðsynlegar aðgerðir til að koma atvinnulífinu upp úr hjólförunum..  Þetta eru atvinnuleiðirnar út úr kreppunni. Ferðaþjónustan hefur kallað eftir samvinnu greinarinnar og stjórnvalda í einu brýnasta verkefni framtíðarinnar sem er vöruþróun fyrir vetrarferðaþjónustu og markaðssetning hennar.  Hún leiðir til betri nýtingar fjárfestinga yfir vetrartímann sem mun bæta arðsemi greinarinnar.  Þannig verður Ísland spennandi staður fyrir ferðamenn að heimsækja á næstu misserum. Því er nauðsynlegt að endurnýjun og nýsköpun eigi sér stað og til þess þarf fjármagn. Samtök ferðaþjónustunnar fagna því vilyrði ríkisstjórnarinnar að leggja fé í samstarf með greininni í vöruþróun og markaðssetningu á vetrarferðaþjónustu."

Alls sóttu um 160 manns aðalfundinn en aðalumræðuefni hans var vetrarferðamennska og gæða og umhverfiskerfið VAKINN. Í nýrri stjórn sem kosin var á fundinum eiga sæti: Árni Gunnarsson, formaður, Flugfélag Íslands, Friðrik Pálsson, Hótel Rangá, Lára Pétursdóttir, Congress Reykjavík, Ingibjörg G. Guðjónsdóttir, Íslenskir fjallaleiðsögumenn, Ingólfur Haraldsson, Hilton Reykjavík Nordica, Sævar Skaptason, Ferðaþjónusta bænda og Þórir Garðarsson, Iceland Excursions.

Nýjast