Staðsetning háskóla skiptir máli

Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri skrifar:

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að stór hluti nemenda kýs að búa áfram þar sem það er við háskólanám eftir að námi lýkur. Ástæður þess eru ýmsar, t.d. hafa margir útvegað sér húsnæði og þekkja vel til nánasta umhverfis, félagslífs og vinnumarkaðar. Nefna má dæmi því til stuðnings. Þannig starfar tæplega helmingur nemenda sem lokið hafa námi við Háskólann í Lapplandi þar að námi loknu og rúmlega helmingur fólks sem lokið hefur námi frá Háskólanum í Oulu í Finnlandi starfar í Oulu-héraði eftir útskrift.

Hver er staða mála hér á landi? Í könnun sem ég átti aðild að og unnin var í samstarfi Háskólans á Akureyri og RHA árið 2001 var búseta brautskráðra nemenda í hjúkrunarfræði og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri skoðuð.

Ein rannsóknarspurning hljóðaði á þá leið hvort marktækur munur væri á búsetu nemenda HÍ og HA að námi loknu. Niðurstöður sýna að búseta svarenda fylgir ákveðnu mynstri þar sem svarendur sem lokið hafa námi við HÍ eru mun líklegri til að velja búsetu á höfuðborgarsvæðinu en svarendur sem lokið hafa námi við HA. Þannig bjuggu 80% hjúkrunarfræðinga frá HÍ og 87% viðskiptafræðinga frá sama skóla á höfuðborgarsvæðinu árið 2000. Hins vegar bjuggu 73,8% hjúkrunarfræðinga frá HA og 75% viðskiptafræðinga frá sama skóla á Akureyri og landsbyggðinni.

Þetta eru mjög áhugaverðar niðurstöður sem eru mjög í samræmi við erlendar rannsóknir. Það er mjög brýnt að endurtaka þessa könnun og sjá hvort það hafi orðið breytingar á síðari árum. Það á einkum við um fjarnámið sem var að hefjast þegar könnunin var framkvæmd. Hefur fjarnámið aukið háskólanám víða um land og hefur það aukið menntunartækifæri kvenna? Ég held að svarið við þessum spurningum sé án efa jákvætt.

Þær niðurstöður sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni benda til að mikilvægt sé að efla háskólamenntun á landsbyggðinni, ýmist með eflingu HA, Hólaskóla, Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskólans eða með því að efla símenntunarmiðstöðvar og háskólasetur sem eru í samstarfi við háskóla í landinu. Efling háskólamenntunar á landsbyggðinni er forsenda fyrir því að landsbyggðin sé einnig þátttakandi í þekkingarsamfélagi. Fleiri áhugaverða pistla má finna á www.blog.central.is/ire.

Nýjast