Spunasystur heiðursgestir á Handverkshátíðinni

Handverkshátíðin krefst mikillar undirbúnings. Mynd/Margrét Þóra.
Handverkshátíðin krefst mikillar undirbúnings. Mynd/Margrét Þóra.

Spunasystur verða heiðursgestir á Handverkshátíð á Hrafnagili sem haldin verður í 26. sinn um helgina eða dagana 9.-12. ágúst. Spunasystur eru hópur um 16 kvenna í Rangárvallasýslu sem hittast reglulega til að spinna og vinna úr íslenskri ull. Spunasystur hafa sótt ýmiss konar námskeið í vinnslu og meðferðullarinnar og miðlað öðrum í hópnum af þekkingu sinni.

Á vefsíðu Handverkshátíðar segir að þeir sem ekki hafi áður séð Spunasystur ættu að sperra eyrun því það sé mikið sjónarspil að fylgjast með þeim stöllum.

„Þær hafa komið með ferskan blæinn í heim handverksins á undanförnum árum og eins og nafnið á hópnum þeirra gefur að kynna þá kemur spuni við sögu,“ segir þar.

Lifandi sýning

Á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit munu Spunasystur setja upp sýningu á handunnum ullarvörum. Áhersla verður lögð á lifandi sýningu með kynningu á spuna á snældu og rokk. Að auki verður sýndur spjaldvefnaðarrammi í notkun, ásamt vefstól, ullarkömbum, kembivél og vattarsaumsnálum. Auk sýningargripa verða m.a. handspunnið band, sjöl, taumar og þæfðar ullarvörur til sölu. Spunasystur munu einnig blása til hópspuna.


Nýjast