Sóum minna!

Margrét Kristín Helgadóttir.
Margrét Kristín Helgadóttir.

Um 20% af útgjöldum heimilanna fara í matarinnkaup. Er þar miðað við hina steríótípíska fjölskyldu - 3,9 manns á heimili. Það gera um 1,6 milljón á ári eða 135 þúsund krónur á mánuði. Enn hafa fngar rannsóknir verið gerðar á því hversu miklum mat Íslendingar sóa á ári hverju, en séum við á pari við önnur Evrópulönd hvað þetta varðar þá má gera ráð fyrir að landsmenn hendi um 30% af öllum mat, frá framleiðslustigi og þangað til að hann endar í ískápnum hjá okkur. Umtalsverður partur af laununum okkar fer nánast í ruslið.

Það er ljóst að við kaupum mun meiri mat en við þurfum í raun á að halda og oftar en ekki er fullgóðum mat hent í ruslið. Þær kröfur sem við gerum varðandi útlit á mat eins og ávöxtum og grænmeti – sem eru engu skárri en útlitskröfurnar í Hollywood – gera okkur ekki auðvelt fyrir að nýta þann mat sem til er. Við erum svo góðu vön að minnsti blettur í kiwi-inu mínu sem hefur ferðast til mín alla leið frá Nýja Sjálandi, farið í gegnum margar hendur og skilið eftir sig kolefnisfótspor í umhverfinu verður þess valdandi að ég hendi því og vel mér bara annað kiwi. Margir taka líka „best fyrir“ dagsetningar á matvörum bókstaflega og henda fullgóðum mat án þess að lykta eða skoða matinn.

Eins og áður sagði liggur ekki fyrir hversu mikil matarsóun er hér á landi eða hvar sóunin á sér helst stað. Vitað er að verslanir henda töluverðu magni og hefur m.a. verið bent á þá sóun sem verður af því að birgjar eru í sumum tilfellum látnir taka aftur vöru sem er runnin út á tíma í stað þess að verslanir selji þær á afslætti. Þetta hlýtur einnig að leiða til þess að framleiðandinn þarf að selja hvert stykki á hærra verði, vitandi að aðeins hluti mun seljast.Heimilin virðast þó ekki vera minni sökudólgar en verslanirnar en samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu er sóun heimilanna annars vegar jafn mikil og sóun framleiðenda og verslanna hins vegar. Við umgöngumst mat og auðlindir okkar eins og þær séu óþrjótandi – en svo er ekki. Eins og er lifum við eins og við eigum margar jarðir. Við ofnýtum vistkerfi og auðlindir umfram endurnýjunargetu jarðarinnar. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum kemur m.a. fram að 28% ræktunarlands í heiminum séu nýtt til að rækta mat sem skemmist eða sé sóað og að framleiðsla á mat sem er ekki neytt losi árlega 3,3 milljörðum tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.

Sveitarfélög geta beitt sér með ýmsum hætti. Akureyrarbær gæti beint því til verslana á Akureyri að bjóða upp á vörur sem eru við það að renna út. Hægt væri að auglýsa á heimasíðu bæjarins hvaða verslanir eru að bjóða upp á slíkt og á sama tíma hvaða verslanir eru að flokka sorp og setja lífrænt í Moltu, sem er jú okkar sameiginlega hagsmunamál. Þetta yrði hvatning fyrir verslanir, því neytendur vilja versla við verslanir sem hafa hugsjónir. Sóunin er eflaust ekki síðri á veitingastöðum. Við gætum hvatt veitingastaðina á Akureyri til að huga að aðgerðum til að koma í veg fyrir matarsóun – bjóða fólki markvisst að taka afganga með sér heim eða koma upp fyrirkomulagi þar sem fólk ræður skammtastærðinni eða getur jafnvel fengið ábót ef fyrri skammtur var of varfærin. Hluti af því að vera kolefnishlutlaust bæjarfélag felst væntanlega í því að sóa ekki mat.  Við getum svo auðveldlega verið sveitarfélagið sem er leiðandi í því að auka vitund fólks fyrir því að sóa minna og huga að umhverfinu. En það þýðir þá líka að Akureyrarbær sjálfur þarf að vera til fyrirmyndar og setja gott fordæmi fyrir aðra að fylgja.

Um stofnanir Akureyrarbæjar fer gífurlegt magn af mat á hverjum degi, allan ársins hring. Má þar nefna grunnskólana, leikskólana og öldrunarheimilin svo eitthvað sé nefnt. Þarna eru því tækifæri fyrir okkur að setja gott fordæmi. Það skemmtilega er að við erum nú þegar að standa okkur ansi vel ef marka má svör frá stofnunum sjálfum. Allir virðast meðvitaðir um vandamálið og grípa til einhverra aðgerða til að sporna gegn því eins og að huga að skammtastærðum og að nýta afganga. Afgangar af t.d. hafragraut og kartöflum eru nýttir í brauðgerð, passað er upp á skammtastærðir og sums staðar er afgangur gefin til dýra.

Bæði Glerárskóli og Síðuskóli hafa gagngert farið í  að auka vitund nemenda og starfsfólks skólanna með fræðslu og aðgerðum. Báðir skólar tóku upp á því að fara að vigta þann lífræna úrgang sem til féll í mötuneytunum og í ljós kom að t.d. í nóvember 2014 var hent 11 kg af matarleyfum í ruslið í hverri viku í Glerárskóla. Í kjölfar þessa ákváðu stjórnendur að vekja athygli á matarsóun og grípa til aðgerða. Hver árgangur fékk sína eigin fötu undir afganga og  eftir hverja viku var nemendum sýnd tölfræði  yfir matarafganga hvers árgangs. Nemendum var bent á hvaða árgangur henti hlutfallslega minnst af mat og einnig hvaða árgangur sýndi mestar framfarir. Skólinn hefur einnig lagt áherslu á að nemendur hendi ekki nesti í skólanum né heldur afgöngum af ávöxtum sem þeir fá í áskrift. Forráðamenn geta þannig fylgst með því hvort börnin borða það nesti sem þau koma með í skólann. Í Síðuskóla var sett af stað samkeppni sem lauk með því að einn bekkur stóð upp sem sigurvegari og fékk verðlaun á sal þar sem allur skólinn var samankominn. Stjórnendur skólans  segja sóun hafa minnkað mikið þegar hver árgangur fékk sinn dall. Þegar lífrænn úrgangur var vigtaður í desember hentu nemendur skólans að meðaltali 15,4 kg af mat á dag en í athugun í apríl hentu nemendur að meðaltali 13,8 kg af mat á dag. Framförin var því um 1,6 kg af mat á dag.

Öldrunarheimilin á Akureyri hafa einnig tekið matarsóun föstum tökum. Starfsfólkið í eldhúsinu þar vinnur nánast allan mat sjálft og þegar ég mætti í heimsókn rétt eftir hádegismat var rétt botnfylli í lífrænu tunninni. Það sem hent er af lífrænum úrgangi þar virðist að megninu til koma af diskum heimilisfólks. Starfsfólk í eldhúsinu er mjög meðvitað um dagsetningar á matvælum og að nýta vörur áður en þær renna út.

Við erum að gera marga mjög flotta hluti sem hafa sprottið af sjálfsdáðum hjá metnaðarfullu starfsfólki Akureyrar. Við getum gert enn betur. Nú er komið að okkur sem stjórnvaldi að beita okkur og gera það sem í okkar valdi stendur. Styðja við stofnanirnar okkar í því sem þau eru byrjuð á, hrósum þeim fyrir frumkvæði og hjálpumst að við að gera enn betur þar.

Ýtum af stað átaki, tölum við veitingahúsaeigendur, hótel, verslanir og hvetjum til samstarfs. Höfum leiðbeiningar aðgengilegar fyrir íbúa bæjarins um hvernig best er að geyma mat til að hann endist lengur, hvað má frysta og hvað ekki, hvaða verslanir og veitingastaðir eru að huga að umhverfinu með flokkun og góðri nýtingu á mat, heilræði um skipulagningu á ísskápnum og frystinum o.s.frv. Ég mun taka málið upp innan bæjarráðs og óska eftir að unnið verði enn frekar að því að sporna gegn matarsóun innan Akureyrarbæjar og hvernig við getum komið því sem við gerum vel á framfæriVið stöndum nú þegar framarlega þegar kemur að því að draga úr matarsóun en höfum tækifæri til að gera enn betur. Drögum vagninn og fáum aðra í lið með okkur.

-Margrét Kristín Helgadóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri

Nýjast