Stefnumótun í sorpmálum var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í morgun, þar sem
deildarstjóri framkvæmdadeildar, Helgi Már Pálsson, fór yfir stöðu mála.
Bæjarráð lýsti ánægju sinni með þá vinnu sem unnin hefur verið til að undirbúa breytt fyrirkomulag sorphirðu á
Akureyri og þær áætlanir sem uppi eru um framtíðarskipulag hennar. Ljóst er að í hönd fara tímar mikilla breytinga hvað
varðar sorphirðu í bænum. Bæjarráð telur því heppilegast að sorphirðu verði fyrst um sinn áfram sinnt af starfsmönnum
Akureyrarbæjar og hefur falið umhverfisnefnd og framkvæmdadeild að vinna áfram að málinu á þessum forsendum.