30. október - 6. nóember - Tbl 44
Söfnun fyrir færanlegu gufubaði gengur vonum framar
„Viðtökur hafa farið fram úr mínum björtustu vonum, við erum þegar komin með um það bil helminginn af takmarkinu“ segir María Pálsdóttir leikkona sem er með verkefni á Karolina fund en það gengur út á að bjóða áhugasömum að kaupa sér aðgang fyrirfram með góðum afslætti að Sánavagni Mæju.
María segir að fólk sé greinilega spennt fyrir verkefninu, en með framlagi til söfnunarinnar sé fólk að tryggja sér aðgang að gufubaðinu þegar það verður tilbúið. „Söfnunin fór í loftið fyrir um það bil viku en miðað við hvað vel gengur lítur út fyrir að markmiðinu verði náð fyrir 6. desember en það er lokadagurinn á Karolina fund,“ segir María sem þegar hefur pantað gufubaðið. Þegar það kemur til landsins verður brunað suður yfir heiðar eftir því og ekið með það norður þar það verður sett upp. „Ég sé fyrir mér að hægt verði að bjóða upp á aðventubað og hlakka mjög til þess.“
Verður hjá Nökkva í vetur
Nú í vetur verður gufubaðið staðsett við aðstöðu Siglingaklúbbsins Nökkva, en nýverið var formlega stofnuð sjósunddeild innan siglingaklúbbsins. María er ein þeirra sem stendur að stofnun deildarinnar. Félagar í deildinni geta nýtt sér búningsaðstöðu og sturtur í húsi Nökkva. Stefnt er að því að félagar fari saman í sjósund í það minnsta tvisvar í viku.
„Þeir sem stunda sjósund hér norðan heiða hafa ekið ýmist á Hauganes eða Hjalteyri til að stunda sundið og nýtt sér í leiðinni heitu pottana sem þar eru. Það verður eflaust gert áfram en með stofnun deildar á Akureyri gefst kostur á að nýta aðstöðu hér i heimabyggð,“ segir María. Eftir því sem deildin eflist og fleiri ganga til liðs við hana væntir hún þess að aðstaða á svæðinu verði bætt, m.a. gerðar tröppur á grjótgarði til að auðvelda fólki að fara út í og koma upp úr sjónum. „Við höfum áhuga fyrir að laga og bæta aðstöðuna fyrir þá sem stunda sjósund og ég á ekki von á öðru en þetta komi allt í fyllingu tímans.“
María á von á að þegar starfsemi fer á fullt hjá Nökkva næsta sumar skapist færi á að flytja gufubaðið annað. „Gufubaðið er færanlegt og ég sé fyrir mér að hægt verði jafnvel að fara af og til út til nágrannabyggðalaganna. Það gæti verið skemmtilegt og eflaust margir sem vilja prófa,“ segir hún.
Ferðasána að ryðja sér til rúms
María segir fátt jafn endurnærandi og heit sánaböð og kæling í sjó eða vatni inn á milli. „Það eru tvö fyrirtæki að bjóða upp á svona böð í Reykjavík og ég hef prófað bæði. Mér finnst þetta svo frábært að ég eiginlega beið ekki boðanna heldur fór af stað með verkefnið og er afskaplega ánægð með hversu vel því hefur verið tekið.“
Ferðasána af því tagi sem hún setur upp á Akureyri innan tíðar hefur verið að ryðja sér til rúms víða um heim, en færanlegum sánaböðum er þá komið fyrir á mismunandi stöðum þannig að hægt sé að njóta gufubaðsins í návígi við náttúruna. Til er sérstök athöfn eða ritúal sem kölluð hefur verið gusa á ástkæra ylhýra og fer þannig fram að sánugestir koma sér fyrir í heitri gufunni sem kynnt er með viðarofni. Gusumeistarinn, sá sem stjórnar gufubaðinu, skvettir vatni á steina og keyrir hitann upp í 15 mínútur, sveiflar handklæði eða blævængjum að þátttakendum til að auka enn á hitann. Á milli lota sem eru alls þrjár stíga gestir út í náttúruna og kæla sig í sjó eða vatni kjósi þeir það. „Þetta nýtur víða vinsælda,“ segir María. „Til að auka enn upplifun gesta eru stundum notaðar ilmkjarnaolíur út í vatnið og þá er tónlist líka mikilvægur þáttur í upplifuninni.“
María tekur fyrstu sjódýfuna hjá Nökkva, en stofnuð hefur verið sjósunddeild innan siglingaklúbbsins.