4. sept - 11. sept - Tbl 36
Snýst um að grípa þá neyð sem er stærst þann daginn
„Ég hef verið miður mín yfir þessu stríði á Gaza frá upphafi, en það að ég fór að stunda hjálparstarf að heiman og styðja við fólk í neyð þar má rekja til þess að ég sá hjálparbeiðni á Facebook sem vakti athygli mína,“ segir Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur sem hefur lagt hönd á plóg og veitt aðstoð sína heiman frá sér, við þá sem eiga um sárt að binda í stríðinu á Gaza.
Hjálparbeiðnin sem Kristín sá var frá 29 ára gamalli móður. Mannsins hennar var saknað. Hann átti eftir að koma í leitirnar síðar, hafði verið handtekinn og pyntaður mánuðum saman. Áfallastreituröskunin var slík að hann þekkti hvorki konu sína né börnin til að byrja með. „Ég byrjaði á að veita henni stuðning,“ segir Kristín sem hefur sérhæft sig í líknarhjúkrun og á langa reynslu af sálgæslu að baki. Eitt leiddi af öðru, skömmu síðar var hún farin að styðja við aðra fjölskyldu sem sendi henni beiðni og smám saman fjölgaði í hópnum.
„Ég fékk vinkonur með mér svo hægt væri að hjálpa fleirum Ég leitaði eftir fjárframlögum og skrifaði um þetta á samfélagsmiðlum til að vekja athygli á neyðinni og leiðum til að hjálpa,“ segir hún. Viðbrögðin voru blendin að sögn Kristínar. „Fólki finnst þetta hræðilegt ástand. Mörg segjast sneiða hjá færslum sem fjalla um þjóðarmorðið. Það segir okkur auðvitað hverju hörmulegt þetta er og hversu skelfilegt það er fyrir fólkið á Gaza að lifa við það sem við treystum okkur ekki til að heyra um.“
Svarar beiðnum eftir vinnu
Kristín fær fréttir frá þeim fjölskyldum sem hún veitir stuðning á morgnana.„Oftast hefur ekki verið svefnfriður. Stundum mikil skelfing. Þetta eru pyntingar, að halda vöku fyrir barnafjölskyldum með því að fljúga flugvélum stöðugt yfir. Það er skotið úr þyrlum og F16 þotur varpa sprengjum með reglulegu millibili,“ segir hún. Eftir vinnu svarar hún beiðnum af ýmsu tagi, veitir ráðgjöf og sálgæslu. „Það snýst um að grípa þá neyð sem er stærst þann daginn. Fjárstuðningur og sálgæsla eru aðal viðfangsefnin. Ég hef auk þess veitt ráðgjöf sem hjúkrunarfræðingur en þarna er mikið um flensur og sýkingar. Þriggja ára fötluð stúlka úr hópnum okkar lést um helgina vegna sýkingar. Svo ótrúlega sorglegt og óþarft,“ segir hún en bæði vatn og matur er af skornum skammti vegna dýrtíðar og það sama má segja um hreinlætisvörur. „Við erum með sjö til átta fjölskyldur í nokkuð föstum stuðningi, foreldrarnir eru fæddir milli 1988-1995. Börn þessara foreldra eru nú 15 talsins. Eitt barnanna er fatlað í hjólastól. Eins barns er saknað, það týndist við rýmingu sjúkrahúss. Þrjár kvennanna eru barnshafandi.“
Þiggur gjarnan aðstoð
Kristín hefur einnig sent staka fjárhagsstyrki og hvatningarorð til mun fleiri fjölskyldna auk þess að vera með ógrynni beiðna á bið og kveðst þiggja alla þá aðstoð sem aðrir hugsanlega geta veitt.
Aðstæðurnar sem fólkið lifir við eru að sögn Kristínar hreint út sagt hörmulegar og siðleysi árásanna algjört. „Fólkið er fyrirvaralaust hrakið milli staða og skotið á eftir því úr þyrlum þannig að það þarf að forða sér á hlaupum við gríðarlega streituvaldandi aðstæður. Svo er sprengt við og við allan sólarhringinn,“ segir hún en oft er hún með fólki í erfiðum aðstæðum í gegnum skilaboðakerfi á facebook. „Ég er til staðar og veiti sálgæslu á meðan árásir standa yfir. Oftast rofnar sambandið svo.“ Í liðinni viku var Kristín á tali við unga fjölskyldu við hræðilegar aðstæður um kvöld, skriðdrekar höfðu umkringt tjaldbúðirnar og skothríðin hófst. Fjölmargir láta lífið. „Þetta er algjör martröð,“ segir Kristín. „Að upplifa ítrekað sáran missi þar sem öll eru uppgefin og öll áfram í lífshættu.“
Sprengja féll í miðri söngstund
Kristín hafði í vikunni söngstund með nokkrum börnum og það var mikið fjör, þau sungu og dönsuðu fyrir hana. „En svo allt í einu Búmm. Öflug sprenging sprakk stutt frá þeim, tjaldið fylltist af reyk og gríðarlegri örvæntingu. Afi barnanna slasaðist. Þetta er svo hræðilegt.“
„Þetta tekur á, það er erfitt að tengjast fólki við erfiðar aðstæður. Börn og saklaust fólk er strádrepið með þungum vopnum stórveldanna og engu eirt, þetta er gríðarleg skömm fyrir mannkynið allt,“ segir hún. En þó það taki á þá vegi upp á móti að lífsgæði fólks aukist við stuðninginn. „Samskiptin gefa fólkinu styrk og það getur keypt nauðsynjar. Ég hef ekki kynnst yndislegra fólki. Yfirvegun þess er ótrúleg og þakklætið djúpt. Við sem styðjum upplifum einlæga umhyggju þess og það er beðið fyrir okkur alla daga. Tengingar milli fólks við þessar aðstæður fara fljótt á dýptina,“ segir hún.
Reem, er þarna á leið af götunni inn í tjald sem fjölskylda hennar keypti eftir styrk frá Kristínu og hennar félögum.
Tjaldbúðir á Gaza.
Blóm í rústunum.
Þeir sem vilja styrkja verkefnið geta lagt Kristínu lið. Einnig er hægt að styrkja með því að fara á facebook síðu hennar – Kristín S. Bjarnadóttir og finna tengla þar við færslur til að styrkja einstaka fjölskyldur beint
Kt. 130668-5189
Banki 0162-26-75930
Athugasemdir