Íris Guðmundsdóttir frá SKA og Björgvin Björgvinsson frá Dalvík voru í aðalhlutverki í alpagreinum á Skíðamóti Íslands í Bláfjöllum sem lauk í gær.
Íris vann þrefalt í kvennaflokki en hún sigraði í stórsvigi, svigi og alpatvíkeppni. Í karlaflokki gerði Björgvin sér lítið fyrir og vann fjórfalt en hann sigraði í svigi, stórsvigi, samhliðasvigi og alpatvíkeppni.
Þá sigraði sveit Akureyrar örugglega í gær er keppt var í boðgöngu, en sveitina skipuðu þeir Andri Steindórsson, Vadim Gusev og Brynjar Leó Kristinsson. Ólafsfirðingar urðu í öðru sæti og í þriðja sæti varð A-sveit Ísafjarðar.