Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á nýju ári fara fram í Hofi á morgun, sunnudaginn 9. janúar kl. 16.00 og er yfirskrift þeirra; Slagverk og strengir. Einleikari á marimbu er Hjörleifur Örn Jónsson og stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 og er því á sínu 18. starfsári.
Hljómsveitin er að þessu sinni eingöngu skipuð strengjaleikurum eins og yfirskrift tónleikanna gefur til kynna. Á efnisskrá er Holberg-svíta eftir E. Grieg, Konsert fyrir marimbu og strengjasveit eftir Ney Rosauro og Kammersinfónía í c-moll eftir D. Shostakovich. Árið 1884, þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Ludvig Holberg, var Edvard Grieg fenginn til að semja verk tileinkað honum en listamennirnir voru báðir frá Bergen í Noregi. Konsert Rosauros fyrir marimbu og strengi er einn vinsælasti marimbukonsert í heimi. Hann var saminn árið 1986 og vinsældir hans hafa örvað önnur tónskáld til viðlíkra tónsmíða. Kammersinfónía Shostakovich er útsetning á strengjakvartett nr. 8. sem Rudolf Barschai gerði í samráði við tónskáldið. Verkið tileinkaði tónskáldið fórnarlömbum stríðs og fasisma og sínum eigin þjáningum.
Hjörleifur Örn Jónsson hóf 9 ára gamall nám í slagverksleik hjá Reyni Sigurðssyni í skólahljómsveit Mosfellssveitar. Hann lauk burtfararprófi frá djassdeild Tónlistarskóla FÍH og stundaði síðan nám í Amsterdam og Berlín en þaðan hann lauk mastersgráðu í slagverksleik. Hjörleifur hefur starfað með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum hér heima og erlendis. Hjörleifur var skólastjóri Neue Musikschule Berlin á árunum 2006-2008 og framkvæmdastjóri Hypno leikhússins þar í borg sem sérhæfir sig í tónlistar- og leiksýningum fyrir börn og unglinga. Hann hefur unnið að skipulagningu viðburða í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík auk ýmissa tónlistarhátíða í Þýskalandi. Hjörleifur hefur verið skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri frá haustinu 2008 og einnig starfað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frá þeim tíma.
Guðmundur Óli Gunnarsson hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá stofnun hennar og starfar einnig við Tónlistarskólann á Akureyri þar sem hann m.a. stjórnar strengjasveit skólans. Guðmundur Óli lauk prófi í hljómsveitarstjórn frá Tónlistarháskólanum í Utrecht í Hollandi.