„Skýtur skökku við þegar uppbygging á sér stað“

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

„Það skýtur skökku við að draga eigi úr fjármagni til markaðssetningar Akureyrarflugvallar á sama tíma og uppbygging á sér stað. Nú er einmitt mikilvægara en oft áður að setja aukinn kraft í varaflugvellina okkar,“ segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar á Akureyri í samtali við Vikublaðið.

Eins og fjallað var um í síðasta blaði er dregið verulega úr framlögum í nýjum samningi stjórnvalda við Markaðsstofu Norðurlands vegna stuðnings við Flugklasann Air66N, sem snýr að því að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Verður styrkurinn 8 milljónir í stað 20 milljóna. Halla Björk segir að suðvesturhornið selji sig sjálft með eldgosið sem aðal aðdráttarafl. Beina þarf vaxandi ásókn flugfélaga á að fljúga til landsins markvisst til Akureyrar- og Egilsstaðaflugvallar.

Halla Björk Reynisdóttir

 

„Það gæti dregið úr þrýstingi á framkvæmdum í Keflavík, hjálpað til við að nýta innviði á Norður- og Austurlandi og gefið okkur betri farveg fyrir dreifingu ferðamanna. Nú er að mínu mati einstakt tækifæri til þess skoða nýjar leiðir til uppbyggingar og þróun ferðaþjónustunnar um land allt,“ segir Halla Björk.

„Viðhalda átroðningi á hluta landsins“

Í apríl kynnti ferðamálaráðherra verkefnið Vörðu; nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar en athygli vekur að fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. Allt staðir á sunnanverðu landinu.

-Eru stjórnvöld að sniðganga Norðurland að þínu mati?

„Já, gagnvart áfangastöðum þá er það sannarlega svo og ákveðin vonbrigði að ekki skuli vera einn einasti áfangastaðar annars staðar en á Suðurlandi á dagskrá hjá stjórnvöldum á þessu ári,“ segir Halla Björk. „Nú þegar tækifæri gefst til þess að endurskipuleggja að einhverju leyti ferðaþjónustuna sem atvinnugrein á Íslandi, virðast stjórnvöld ætla að leggja allt kapp á uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og viðhalda þannig átroðningi á hluta landsins í stað þess að gera tilraun til að dreifa álaginu. Ég leyfi mér hins vegar að vera bjartsýn á að uppbygging á Norðurlandi verði sett á dagskrá strax á næsta ári.“

 

 


Athugasemdir

Nýjast