Skriðuhreppur hinn forni, bændur og búalið á 19. öld

Út-Öxnadalur 1. 
Skriðuhreppur hinn forni náði yfir Hörgárdalinn vestan Hörgár frá Dunhagakoti og f…
Út-Öxnadalur 1. Skriðuhreppur hinn forni náði yfir Hörgárdalinn vestan Hörgár frá Dunhagakoti og fram í dalbotn en auk þess yfir Öxnadalinn allan frá Bægisánni sem sést hér fremst á myndinni. Syðri-Bægisá var í Skriðurhreppi en Ytri-Bægisá í Glæsibæjarhreppi. Rétt er að taka fram að staðsestning Efri-Bægisár byggist á getgátu.

Út er komið ritverkið, Skriðuhreppur hinn forni, bændur og búalið á 19. öld, tveggja binda verk, samtals um 1.000 blaðsíður, prýtt ljósmyndum, teknum úr lofti, af staðháttum þar sem merktir eru inn allir bæir sem um er fjallað. „Að baki liggur margra ára vinna og grúsk í öllum mögulegum og ómögulegum heimildum og afraksturinn – jú, einstakt verk, er óhætt að segja og er þá ekki djúpt í árinni tekið,“ segir í tilkynningu frá útgefanda.

Völuspá útgáfa gefur verkið út en höfundur er Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

Fáein orð um bókina Skriðuhreppur hinn forni, bændur og búalið á 19. Öld:

Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri hefur sent frá sér bókina Skriðuhreppur hinn forni, bændur og búalið á 19. öld. Þar fjallar hann um fólkið í Skriðuhreppi á 19. öld, skyggnist inn í heim, sem okkur er horfinn. Bæjaröðin hefst við Syðri-Bægisá, ysta bæ í Öxnadal og lýkur við Dunhagakot í Hörgárdal.  Alls eru bæirnir 64 talsins og eru margir þeirra farnir í eyði á okkar dögum.

Raktir eru ábúendur á hverjum bæ, sagt frá uppruna þeirra, og gerð grein fyrir afkomu og efnahag. Svo eru fjölskylduhagir teknir til frekari skoðunar,  afkomendunum fylgt eftir, sagt frá kunnáttu og menntun og vegferð þeirra eftir því sem kostur er. Skyldleika fólks eru gerð nokkur skil. Litið er á mannlegan breyskleika bæði er tekur til lausaleiksbarna og gripdeilda. Vinnufólk fær sína umfjöllun svo og fátæklingarnir, margir þeirra aldnir og veikir, umkomulítil börn, allt er þetta nefnt einu nafni hreppsómagar.

Sagt er frá fyrsta póstráni sögunnar og stórtækasta sauðaþjófnaði fyrr og síðar í Eyjafjarðarsýslu, flóknum réttarhöldum og dómum, erfðadeilur koma við sögu, einnig slysfarir og skaðar.

Ritið, sem er 1016 bls. að lengd og er í tveim bindum, er byggt á kirkjubókum, hreppsbókum, dómabókum og manntölum auk um 100 rita og greina. Þar eru einnir loftmyndir, en þar eru merktir þeir bæir, sem koma við sögu og einnig eru nokkrar myndir af húsakosti fyrri tíðar.

 


Athugasemdir

Nýjast