Vilja skoða persónukjör fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar

Akureyri.
Akureyri.

Með því að afnema minni-og meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar hefur verið rætt um að nú sé tækifæri til að hafa persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum sem fara fram vorið 2022. Þannig sagði formaður bæjarráðs Akureyrar í þættinum Landsbyggðir á N4 í haust að samvinna allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar gæti verið vísir að persónukjöri í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Umræðan um persónukjör er ekki ný af nálinni hér á Akureyri og bar einnig á góma í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Færst hefur í vöxt að fólk horfi meira á einstaklinga frekar en flokka þegar kemur að því að kjósa.

Vikublaðið kannaði hug oddvita flokkana í bæjarstjórn Akureyrar um hvernig þeim líst á þær hugmyndir að hafa persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

„Rétt að dusta rykið af tillögunni“

„Ég er hlynntur því að möguleikar á útfærslu á persónukjöri verði skoðaðir,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins. „Málið var til umræðu á síðasta kjörtímabili í kjölfar þessa að vinnuhópur um íbúalýðræði og gagnsæja stjórnsýslu gerði tillögu um að komið yrði á persónukjöri í kosningum til bæjarstjórnar Akureyrar.  Málið var skoðað og rætt á vettvangi bæjarráðs en náðist ekki að fylgja því eftir. Nú þegar styttast fer í annan endan á kjörtímabilinu er rétt að dusta rykið af þessar tillögu og ég hef lagt til að við bæjarfulltrúar skoðum málið,“ segir Guðmundur.

Sóley Björk Stefánsdóttir

Hrifin af hugmyndinni

„Ég er hrifin af því að fara í átt að persónukjöri á þann hátt til dæmis að kjósendur geti krossað við ákveðna aðila á framboðslistum og hugsanlega á fleiri en einum lista í senn,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir formaður Vg. „En mér finnst ennþá mikilvægt að boðnir séu fram listar fólks sem hafa sameiginlega hugmyndafræði því það er mikilvægt að kjósendur hafi tækifæri til að átta sig á því hvaða hugmyndafræði frambjóðendur hafa til að hafa einhverja möguleika til að spá fyrir um ákvarðanir kjörinna fulltrúa í málum sem ekki eru rædd í aðdraganda kosninga.“

Hlynur Jóhannsson

„Ekki raunhæft í næstu kosningum“

Hlynur Jóhannsson oddviti Miðflokksins líst vel á hugmyndina en er þó efins um að þetta verði hægt í næstkomandi sveitarstjórnarkosningum. „Ég held að það sé ekki raunhæft í næstu kosningum en ég hef lengi verið á þeirri skoðun að persónukjör sé best í sveitarstjórnarkosningum,“ segir Hlynur.

Gunnar Gíslason

Vill skoða kosningu á bæjarstjóra

„Mér finnst að það eigi að skoða það ítarlega hvort hægt sé að koma við persónukjöri í sveitarstjórnarkosningum,“ segir Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Það væri t.d. hægt að gera það þannig að um leið og fólk kýs ákveðinn lista raði það honum upp öllum eða hugsanlega fyrstu sex sætunum, eða þá hitt að fólk merki við 22 nöfn óháð pólitískum flokkum sem það raðar upp. Þá væri ekki úr vegi að við tökum upp kosningu bæjarstjóra samhliða kosningu til sveitarstjórnar. Tek það fram að hér er um mínar persónulegu skoðanir að ræða en ekki Sjálfstæðisflokksins,“ segir Gunnar.

Halla Björk Reynisdóttir

Kjósendur hafi meiri áhrif á samsetningu bæjarstjórnar

„Ég tek undir með þeim sem telja að það sé kominn vísir að persónukjöri með því að afnema meiri- og minnihluta og tel mikilvægt að umræða um breytingar á kjöri til bæjarstjórnar fari fram, kosti þess og galla,“ segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar og oddviti L-listans. „Í kringum 2010 voru gerðar breytingar á lögum sem lýsa framkvæmd slíkrar kosningar og ég man eftir nokkurri umræðu innan bæjarstjórnar um persónukjör fyrir kosningarnar 2014. Árið 2016 komu síðan fram tillögur um persónukjör unnar af vinnuhóp sem skoðaði gagnsæi í stjórnsýslu og lýðræði, sem ágætt er að hafa til hliðsjónar. Ég er sjálf mjög hlynnt því að persónukjör verði reynt og útfærslan ímynda ég mér, yrði þá það sem skipti máli. Ég er í grunninn hlynnt því að kjósendur geti haft meiri áhrif á samsetningu bæjarstjórnar en nú er og tel að persónukjör gæti leitt til þess. Þá hefur það sýnt sig að málefnaágreiningurinn er mun minni hjá sveitarstjórnarfólki en alþingismönnum, sem dregur úr þörf fyrir flokkapólitíkina,“ segir Halla Björk.

Hilda Jana Gísladóttir

Kostir og gallar

„Enn sem komið er er afstaða mín ekki afgerandi. Ég tel bæði kosti og galla fylgja núverandi fyrirkomulagi, sem og persónukjöri,“ segir Hilda Jana Gísladóttir oddviti Samfylkingarinnar. „Ég tel hins vegar ráðlegt að við skoðum hvort að persónukjör eða jafnvel blönduð leið gæti verið vænlegur kostur Sé vilji til þess að gera breytingar sem þessar þá tel ég mikilvægt að slíkt sé gert í víðtæku samráði, hlutverk stjórnmálaflokka sé skoðað sem og gildandi lög um kosningar og sveitarstjórnir,“ segir Hilda Jana.

 


Athugasemdir

Nýjast