Skoða mögulegar leiðir fyrir áframhaldandi starfsemi á Lauga­landi

Meðferðarheimilið Laugaland.
Meðferðarheimilið Laugaland.

Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, segir enga á­kvörðun hafa verið tekna um að hætta starf­semi með­ferðar­heimilisins á Lauga­landi. Rekstrar­aðili heimilisins hafi sagt upp samningi sínum og nú sé verið að skoða hvernig sér hægt að halda úr­ræðinu á­fram. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu en mikið hefur verið rætt og ritað um lokun Laugalands undanfarna daga. 

„Þetta er þannig að í kringum ára­mótin til­kynnir rekstrar­aðilinn sem heldur þessari stofnun gangandi að hann vilji segja upp úr­ræðinu og hætta starf­semi. Það er þá sem við fáum þetta í fangið, Barna­verndar­stofa og ráðu­neytið,“ segir Ás­mundur. „Við erum á fyrstu metrunum í því að fara yfir hvað verður gert. Það er ekki búið að taka á­kvörðun um fram­haldið,“ bætir hann við.

Ás­mundur Einar segist muna funda með starfs­fólki Lauga­lands að þeirra beiðni en starfs­menn hafa sent á­skorun á Ás­mund og Heiðu Björg Pálma­dóttir, for­stjóra Barna­verndar­stofu um að finna leið til að halda starf­seminni gangandi. Heiða Björg Pálma­dóttir, for­stjóri Barna­verndar­stofu, tekur í sama streng og Ás­mundur og segir í samtali við Fréttablaðið það of snemmt að segja til um hvað verður um starf­semi Lauga­lands. Hún segir að það hafi alltaf verið á­nægja með Lauga­lands. Barna­verndar­stofa mun funda með sveitar­fé­lögunum í næstu viku.

Pétur G. Broddason hefur verið forstöðumaður á meðferðarheimilinu að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit frá árinu 2007. Laugaland er einkarekið meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu fyrir stúlkur á aldrinum 13-18 ára með fjölþættan hegðunarvanda. Heimilið er í um 15 km. fjarlægð frá Akureyri. Meðferðarheimilið hefur verið starfrækt frá árinu 1997, fyrst í Varpholti í Hörgárbyggð síðan að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit, frá því í september 2000. Frá árinu 2000 hefur skapast sú hefð að vista einungis stúlkur á Laugalandi.

Pétur Broddason gaf ekki kost á viðtali við Vikublaðið þegar blaðið hafði samband við hann.

 

 


Athugasemdir

Nýjast