Skoða hvort Bakki henti undir starfsemina

Loftmynd af Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa
Loftmynd af Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa
  • Norðurþing fer í formlegar viðræður um lóð undir framleiðslu á grænu eldsneyti


 

Sveitarstjórn Norðurþings hefur samþykkt að hefja formlegar viðræður við fyrirtækið Green Fuel ehf. um lóð á Bakka undir starfsemi fyrirtækisins. Málið var rætt á síðasta fundi sveitarstjórnar.

Þar sagði Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri að samkvæmt kynningum frá forsvarsmönnum fyrirtækisins í byggðarráði væri byggði Green Fuel á þeirri sýn á framtíðina að heimurinn verði án mengandi útblásturs, þar sem hrein orka er framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt.

„Þeir sjá fyrir sér hlutverk sitt til framtíðar að sjá m.a. hluta af kaupskipaflota heimsins fyrir umhverfisvænu eldsneyti með framleiðslu á grænu ammóníaki,“ sagði Kristján og bætti við að umrætt verkefni væri allrar athygli vert. Markmið fyrirtækisins væri að framleiða grænt vetni og umbreyta því svo um leið í grænt ammóníak.

„Í ljósi þess sem við höfum kynnt okkur og byggðaráð verið upplýst um þá er fullt tilefni fyrir ráðið að eiga frekari samtöl við þetta fyrirtæki. Ekkert liggur enn þá fyrir um aðra þætti verkefnisins sem að snúa að orkukaupum en við búumst við því að hlutaðeigandi  séu í einhvers konar samtali um það,“ sagði Kristján enn fremur. Fyrstu skref séu að skoða hvort Bakki henti undir starfsemina eða hvort hægt sé að finna þessu verkefni lóð. „Ég sé enga ástæðu til annars en að skoða þetta mjög gaumgæfilega í framhaldinu.“


Athugasemdir

Nýjast