Í bókun skipulagsnefndar segir: Samkvæmt tillögu að aðalskipulagsbreytingu dags. 5. desember 2010 er gert ráð fyrir nýju efnistökusvæði í landi Hvamms sunnan Kjarnaskógar. Í deiliskipulagi skal gert ráð fyrir að efnistökusvæðið verði ekki stærra en 1,5 ha og dýpi námu í samræmi við það. Gert er ráð fyrir að þar megi vinna allt að 120.000 rúmmetra af efni og að náman verði opin til næstu 15 ára. Eitt fjölsóttasta útivistarsvæði landsins, Kjarnaskógur í landi Akureyrar er í um 500 m fjarlægð frá fyrirhuguðu efnistökusvæði. Þar sem um er að ræða grjótnámu þar sem efnistaka og vinnsla byggir á sprengingum og vinnslu á grjóti má gera ráð fyrir verulegum áhrifum á gesti útivistarsvæðisins í Kjarnaskógi. Í Umhverfisskýrslu EFLU dags.15.11.2010 er talið að efnistaka í Hvammi geti haft neikvæð áhrif vegna hávaða, rykmengunar og titrings fyrir íbúa aðliggjandi jarðar og gesti Kjarnaskógar. Þessu til viðbótar verður mikil sjónmengun af viðkomandi námu fyrir þá gesti útivistarsvæðisins sem eiga leið um þau svæði sem ofarlega liggja.