Skiptir öllu fyrir okkur að starfsemin haldist á Akureyri

Fulltrúar Samherja, þeir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri, Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs og Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu félagsins og Guðmundur Kristjánsson framkvæmdastjóri Brims, funduðu með starfsfólki landvinnslu Brims í morgun. Eins og fram hefur komið var gengið frá samningi milli Brims og dótturfélags Samherja  um kaup á eignum Brims á Akureyri.  

Félagið fær nafnið Útgerðarfélag Akureyringa. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Um er að ræða fiskvinnslu á Akureyri og Laugum ásamt vélum og tækjum, ísfisktogarana  Sólbak EA 1 og Mars RE 205, sem áður hét Árbakur; veiðiheimildir í þorski, ýsu, steinbít og skarkola, samtals 5.900 þorskígildistonn. Guðmundur Kristjánsson sagði á fundinum í morgun, að Brim myndi reka landvinnsluna þar til Samkeppniseftirlitið hefði fjallað um málið. Þorsteinn Már Baldvinsson sagði að eftirlitið hefði 25 daga til að afgreiða málið en hann hafði sínar efasemdir um að kaupin hafi þurft að fara fyrir Samkeppniseftirlitið.

Hrefna Þorbergsdóttir trúnaðarmaður starfsfólks í landvinnslu Brims á Akureyri, sagðist eftir fundinn, alveg sæmilega sátt við þessa niðurstöðu. "Þessi starfsemi helst hér á Akureyri og það skiptir öllu máli fyrir okkur sem vinnum hér. Auðvitað eru skiptar skoðanir meðal starfsfólks, en flestir eru sáttir, að mér finnst. Við þurfum heldur ekkert að vera að horfa til fortíðar og þessi breyting verður vonandi til að efla starfsemina enn frekar."

Aðspurð um hugsanlegar breytingar á vinnufyrirkomulagi sagði Hrefna að það væri þá eitthvað sem samið yrði um. "Við erum mjög sátt við hlutina eins og þeir hafa verið og samþykkjum ekki hvað sem er. Þessi tími  hjá Brim hefur verið góður og ég er bjartsýn á framtíðina, það þýðir ekkert annað," sagði Hrefna.

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju sagðist einnig ánægður með þessa niðurstöðu. "Úr því Brim var að selja er ég mjög ánægður með að það skulu vera heimamenn sem kaupa. Þetta tryggir okkar störf hér á Eyjafjarðarsvæðinu, það er mikils virði fyrir fiskvinnlsuna og þá stóriðju sem hún er. Samherjamenn þekkja vel til hér við fjörðinn og hafa unnið ötullega að uppbyggingu og ég vona að þetta sé bara enn eitt skrefið hjá þeim í efla starfsemina enn frekar á svæðinu," sagði Björn.

Hann segir að vonandi fari málefni sjávarútvegsins að skýrast, þannig að menn geti haldið áfram að vinna í þessum atvinnuvegi. "Ég trúi því og treysti að það muni gerast. Mér finnst það líka virðingarvert sem Samherji er að gera með því að selja eignir í útlöndum og koma með fjármunina til að fjárfesta hér á svæðinu. Það sýnir að menn hafa áhuga á því sem þeir eru að gera, þeir eru líka að fá hér frábært starfsfólk með mikla sérþekkingu og reynslu og hér á Eyjafjarðarsvæðinu er aðallinn í fiskvinnslu," sagði Björn.

Nýjast