Skautafélag Akureyrar og Reiðskólinn í Ysta-Gerði hljóta samfélagsstyrk Krónunnar

Skautafélagið heldur úti öflugu starfi.  Mynd  Aðsend
Skautafélagið heldur úti öflugu starfi. Mynd Aðsend

Krónan hefur nú valið félög og félagasamtök sem hljóta samfélagsstyrki til verkefna sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna og/eða verkefna sem hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu í nærsamfélagi Krónunnar. Alls bárust yfir 300 umsóknir í ár sem er metaðsókn og eru langflestir styrkþegar staðsettir á landsbyggðinni. Tvö verkefni hlutu styrk á Akureyri en þetta er í þriðja sinn sem Krónan veitir samfélagsstyrki á Norðurlandi með opnun verslunar Krónunnar á Akureyri haustið 2022.

Reiðskólinn í Ysta-Gerði hlýtur styrk í ár fyrir verkefni þar sem börnum með sérþarfir eða greiningar er boðið í hesthúsið eftir skóla. Markmið verkefnisins er m.a. að efla sjálfstraust barnanna í rólegu og vinalegu umhverfi í nánd við hesta og önnur dýr.

Að auki hlaut Skautafélag Akureyrar styrk til kaupa á svokölluðum leikjapúðum sem nýtast á svellinu til að fleiri ungir iðkendur geti æft þar á sama tíma.

„Styrkurinn mun koma sér vel til kaupa á leikjapúðum á skautasvellið okkar. Með púðunum er hægt að skipta upp skautasvellinu í minni einingar, en þannig nýtist ísinn betur og við getum haft fleiri iðkendur og æfingar á sama tíma. Að auki eru þeir skemmtilegir, mjúkir og léttir svo þeir henta vel fyrir allar barna- og byrjendaæfingar en eru á sama tíma þægilegir í meðferð þar sem það tekur stuttan tíma að koma þeim fyrir,“ segir Jón Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri Skautahallarinnar á Akureyri.

„Það eru ekki nema þrjár skautahallir á Íslandi og hér á Akureyri erum við með eina svellið utan höfuðborgarsvæðisins. Hjá félaginu starfa þrjár deildir svo skortur á ístíma er mikill og er ávallt full nýting á svellinu. Púðarnir gera okkur kleift að auka nýtinguna og efla barnastarfið hjá félaginu til muna. Við þökkum Krónunni innilega fyrir styrkinn,“ bætir Jón Benedikt við.

„Það er virkilega ánægjulegt að veita þessum tveimur verkefnum samfélagsstyrk Krónunnar á Norðurlandi enda ríma þau vel við þá stefnu sem Krónan hefur sett sér varðandi veitingu styrkjanna ár hvert. Það er einnig ánægjulegt að sjá hversu mörg félög og samtök á Norðurlandi sóttu um í ár og sýnir það hversu öflugt starf er unnið á svæðinu þegar kemur að hreyfingu og lýðheilsu barna. Við hlökkum til að fylgjast með því frábæra starfi sem unnið er í Reiðskólanum í Ysta-Gerði og Skautafélagi Akureyrar og óskum þeim til hamingju með styrkina,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Segir í tilkynningu í morgun.


Athugasemdir

Nýjast