Skæður lúsafaraldur í trjám

Margir Akureyringar hafa orðið varir við töluverðar skemmdir á sitkagrenitrjám í bænum og er orsökin lúsafaraldur í trjánum. Hallgrímur Indriðason, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, sagði að lúsafaraldurinn væri sá versti sem hans fólk hafi kynnst á Akureyri. Lúsin leggst frekar á stök tré í görðum, í Kjarnaskógi ber t.d. ekki jafn mikið á þessu. „Sem dæmi um slæm tilvik í bænum má nefna Eiðsvöllinn þar sem eru tiltölulega fá en stórvaxin sitkagrenitré, þau eru bara eins og brunninn skógur," sagði Hallgrímur. Trén eru þó langt frá því að vera dauð eftir lúsina og er varla vitað til þess að lúsin hafi drepið tré. Á frekar stuttum tíma, tveimur til þremur árum, hverfur skaðinn af lúsinni alveg af trjánum. Þau hins vegar vaxa ekki mikið á þessum tíma þar sem þau verða fyrir áfalli," segir Hallgrímur.

Hann sagði erfitt að útskýra orsökina fyrir þessum skæða faraldri. „Lúsin lifir á trjánum allt árið, hún fer ekki í dvala. Talið er að þrjá til fjóra daga með 15-16 gráðu frosti í röð þurfi til þess að drepa hana. Við höldum jafnvel að slíkt frost hafi ekki komið í vetur og þess vegna séu þarna margar kynslóðir af lús að bíta. Við sjáum lúsina helst á haustin á nálunum og hún sýgur næringarsafa úr þeim. Það sem við sjáum er skaðinn af því."

Hallgrímur sagði að hægt væri að úða fyrir þessu, það þurfi að gera kerfisbundið og ekki er nóg að fara einu sinni af stað. „Það þarf að úða nokkrum sinnum og vanda vel til verka vegna þess að eitrið sem virkar á lúsina þarf að snerta hana sjálfa. Stundum sér maður árangur af því en stundum engan," sagði Hallgrímur.

Nýjast