Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að hefja sitt 17. starfsár

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er um þessar mundir að hefja sitt 17. starfsár. Frá stofnun hljómsveitarinnar hefur mikið áunnist, tónleikum fjölgað og starfsemin aukist til muna. Miklar breytingar eru framundan hjá SN því þetta verður síðasta árið fyrir flutning hljómsveitarinnar í HOF menningarhús. Guðmundur Óli Gunnarsson hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frá upphafi og hann er mjög ánægður með hvernig hlutirnir hafa þróast.  

"Hljómsveitin hefur dafnað og styrkst í samfélaginu, sem og hlutverk hennar. Það er samt alltaf verið að leita leiða til að gera betur og meira, en heilt yfir hefur þetta verið ákaflega skemmtileg vegferð. Það eru líka spennandi tímar framundan, þegar við horfum fram á að innan ekki of langs tíma verði menningarhúsið vígt með glæsilegum tónleikasal, þar sem hljómsveitin mun loks fá aðsetur. Það verður allt annað og betra og mikil umbylting."

Guðmundur Óli segir að einn af kostum hljómsveitarinnar sé sveigjanleikinn. Hljóðfæraleikararnir séu ekki fastráðnir, heldur ráðnir til ákveðinna verkefna, þannig að hljómsveitin geti verið allt frá fámennum hópi og upp í 60 manna sveit. Flestir hljóðfæraleikarnir koma af Norðurlandi, eða um 30 manns en þegar sveitin er fjölmennari þarf að leita til tónlistarfólks víðar um land."

Efnisskrá vetrarins verður fjölbreytt og unnin í samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Leikfélag Akureyrar, Kirkju- og menningarmiðstöðina Fjarðabyggð og  Tónlistarskólann á Akureyri. Þrennir tónleikar verða á fyrri hluta starfsársins auk skólatónleika í grunnskólum á Norðurlandi. Guðmundur Óli segir að boðið verði upp á ákaflega fjölbreytta dagskrá í vetur, rússnesk tónlist verði þó áberandi en lagt sé upp með að flytja tónlist af sem ólíkustu tagi. Skólatónleikar, sem skipa stóran sess í dagskrá vetrarins, hefjast nk. þriðjudag þegar Grunnskóli Siglufjarðar og Grunnskóli Ólafsfjarðar verða heimsóttir. Strengjakvartett mun að þessu sinni fara í skólana og kynna tónlist frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar.  Farið verður í grunnskóla allt frá Siglufirði austur á Þórshöfn. Haldnir verða hátt í 30 tónleikar og er það Menningarráð Eyþings sem er aðal styrktaraðili þessa verkefnis.

Vel tekið í skólunum

Guðmundur Óli segir að skólatónleikarnir hafi verið mikilvægur þáttur í starfi hljómsveitarinnar. "Mér finnst þetta hafa tekist ákaflega vel og er orðinn eðlilegur þáttur í starfi hljómsveitarinnar og skólanna. Okkur er alltaf vel tekið og af áhuga bæði af starfsfólki og nemendum. Við reynum að hafa þetta með fjölbreyttu sniði og verðum með allt frá Mozart og alveg yfir í Eurovision í ár."

Saga dátans eftir Igor Stravinsky verður sett upp í Samkomuhúsinu 17. október í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Stravinsky samdi verkið fyrir þrjá leikara, dansara og litla hljómsveit. Leikstjóri er María Sigurðardóttir og hljómsveitarstjóri Guðmundur Óli. Verkið fjallar um hermanninn Jósef sem er á leið heim í 14 daga frí. Á leiðinni hittir hann Kölska í gervi gamals manns og selur honum fiðluna sína í skiptum fyrir bók sem á að færa honum óendanleg auðævi. Jósef kemst þó fljótlega að því að auðurinn færir honum ekki hamingju og hann þráir ekkert heitar en að vera fátækur á ný. Verkið sem var frumflutt í Sviss í lok fyrri heimsstyrjaldar er ádeila á mannlega græðgi og auðsöfnun - eitthvað sem virðist eiga erindi nú jafnt sem þá. "Við höfum flutt þetta verk áður en þá með sögumanni á Akureyrarvöku og það leiddi til þessa samstarfs við LA nú," sagði Guðmundur Óli.

Sunnudaginn 15. nóvember tekst hljómsveitin á við tvær sinfóníur á tónleikum í Glerárkirkju. Annarsvegar er það Sinfónía nr. 1 eftir Prokofieff oft kölluð "Klassíska sinfónían" og hinsvegar verður leikin Sinfónía nr. 8 eftir L.van Beethoven. Einnig verður á efnisskránni verk eftir R. Wagner, Sigfried Idyll.  Guðmundur segir að þarna sé um að ræða algjöra hljómsveitartónleika, þar sem hvorki koma við sögu einsöngvari eða einleikari.

Sinfóníuhljómsveitin hefur verið í samstarfi við Austfirðinga í all nokkur ár varðandi tónleikahald. Á aðventunni leggur sveitin land undir fót austur á land og heldur aðventutónleika á Eskifirði 29. nóvember í samstarfi við Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar og kóra á Austurlandi. Flutt verður m.a. Messa í C dúr eftir W.A. Mozart og ævintýrið um Snjókarlinn eftir Hovard Blake.

Sigrún og Bryndís Halla einleikarar í vetur

Á tónleikum í Akureyrarkirkju þann 14. febrúar nk. verður telft saman nýrri og gamalli tónlist. Á efnisskránni verður Fiðlukonsert eftir Hauk Tómasson þar sem Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari leikur einleik. Haukur er eitt af þremur íslenskum tónskáldum sem hlotið hefur tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs og segir Guðmundur Óli að hann sé almennt talið eitt merkasta núlifandi tónskáld þjóðarinnar. "Þessi fiðlukonsert þykir ákaflega flottur og hefur  notið mikillar aðdáunar þar sem hann hefur verið fluttur, bæði hér á landi og erlendis með Sigrúnu og hún fer á kostum í þessu verki." Einnig verður flutt Sinfónía nr. 25 eftir W.A.Mozart. Við flutning sinfóníunnar fær SN til liðs við sig strengjasveit Tónlistarskólans á Akureyri en þessir tónleikar eru samstarfsverkefni SN og skólans.

Sinfónía nr. 4 í A dúr "ítalska sinfónían" eftir F. Mendelssohn og Sellókonsert nr. 1 eftir D. Shostakowich er á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á skírdag. Einleikari á selló er Bryndís Halla Gylfadóttir. Guðmundur Óli segir Bryndís Halla sé einn af glæsilegustu einleikurum landsins, hún sé leiðandi sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hafi leikið einleik hér heima og erlendis. "Það er ákaflega gaman að fá hana til liðs við okkur en það hefur reyndar staðið til í nokkurn tíma."

Tónleikarnir í maí bera yfirskriftina; Slagverk og strengir. Á efnisskrá er Konsert fyrir marimba og strengjasveit eftir Ney Rosauro, Holberg svíta eftir E. Grieg og Kammersinfónía eftir D. Shostakowich. Einleikari á marimba er Hjörleifur Örn Jónsson slagverksleikari.

Nýjast