Sigrún Björk ráðin hótelstjóri Icelandir Hótels á Akureyri

Icelandair Hótels munu opna nýtt heilsárshótel við Þingvallastræti á Akureyri þann 1 júní nk. og hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri verið ráðin hótelstjóri. "Þetta leggst mjög vel í mig og það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni að opna nýtt 100 herbergja hótel á vinsælum ferðamannastað eins og Akureyri er," segir Sigrún Björk.  

Hún er menntuð hótelrekstrarfræðingur og vann hér á árum áður sem hótelstjóri m.a. á Hótel Norðurlandi á Akureyri. "Ég gekk frá ráðningarsamningi þann 12.janúar sl. vegna starfsins en mun hefja störf þann 1. mars nk. Verkefnið framundan er að ráða starfsmenn og ég geri ráð fyrir að það verði um 30 manns við störf á hótelinu."

Sigrún Björk var í haust ráðin tímabundið til Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi, til  þess að skoða möguleika á beinu flugi til Norðurlands. "Verkefnið snýst um það að kortleggja þau fjölmörgu tækifæri sem eru í vetrarferðaþjónustunni hér á Norðurlandi  og hvað við þurfum að gera til að fjölga þeim og fyrst og fremst eru það möguleikar í afþreyingu sem ég hef verið að skoða. Það er afþreyingin sem dregur fólk fyrst og fremst á nýja staði," segir Sigrún Björk.  

Nýjast