Siðareglur kjörinna fulltrúa í Akureyrarkaupstað samþykktar

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær framlagðar Siðareglur kjörinna fulltrúa í Akureyrarkaupstað með 11 samhljóða atkvæðum. Vinna við reglugerðina hefur staðið yfir í rúmt ár en hún hefur verið á forræði stjórnsýslunefndar. Nefndin hafði m.a. óskað eftir því við fastanefndir bæjarins að þær tækju drög að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa til umræðu á fundum.  

Athugasemdir bárust um drögin frá íþróttaráði, skipulagsnefnd og félagsmálaráði auk þess sem kjarasamninganefnd og nýstofnað ungmennaráð sendu athugasemdir. Bæjarráð, samfélags- og mannréttindaráð og umhverfisráð samþykktu drögin fyrir sitt leyti. Markmið reglnanna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem kjörnum fulltrúum ber að sýna við störf sín á vegum Akureyrar­kaupstaðar. Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa sem og alla aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum hjá Akureyrarkaupstað.

Ennfremur segir m.a. í Siðareglunum, að kjörnum fulltrúum ber að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum. Þeir taka ekki þátt í undirbúningi og afgreiðslu mála sem varða sérhagsmuni þeirra sjálfra, venslamanna, skjól­stæðinga eða annarra sem tengjast þeim svo sérstaklega að ætla megi að afstaða þeirra mótist að einhverju leyti af þeim tengslum. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til eigin hagsbóta.

Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða annan viðurgjörning frá íbúum og viðskipta­vinum Akureyrarkaupstaðar eða þeim er leita eftir verkefnum eða þjónustu bæjarins, þannig að túlka megi sem persónulega þóknun fyrir ákvarðanir á vegum bæjarstjórnar eða nefnda.

Þá segir að Siðareglur þessar skuli teknar til umræðu í bæjarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils og endurskoðaðar ef þörf þykir. Kjörnir fulltrúar skulu við upphaf hvers kjörtímabils undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér og virði reglur og samþykktir bæjarstjórnar.

Nýjast