Sextíu ár frá slysinu í Óshlíð þegar tveir Þórsarar létust

Í dag, 8. júlí, eru 60 ár liðin frá hinu hörmulega slysi þegar tveir ungir íþróttamenn í Þór létust þegar stór steinn féll ofan á langferðabíl sem þeir voru farþegar í á ferð um Óshlíð. Af þessu tilefni og til að heiðra minningu þessara tveggja félaga mun formaður Þórs, Sigfús Ólafur Helgason, leggja blómaskreytingar á leiði þeirra í dag. Þeir sem létust voru Kristján Guðmundur Kristjánsson og Þórarinn Jónsson. Þá slösuðust þeir Þorsteinn Svanlaugsson og Halldór Árnason mikið.
 

Það var 28 manna hópur Þórsarar sem lagði upp í hina örlagaríku ferð fimmtudagskvöldið 5. júlí 1951 frá Ferðaskrifstofunni. Tilgangur ferðarinnar var að fara í æfinga- og keppnisferð vestur á Ísafjörð. Keppa átti við íþróttafólk þar vestra í frjálsum íþróttum og knattspyrnu.  Á laugardeginum 7.  júlí var keppt í frjálsum íþróttum en um kvöldið lék Þór við sameinað lið Vestra og Harðar í knattspyrnu.

Á sunnudeginum örlagaríka bauð Íþróttabandalag Ísafjarðar Þórsfélögum í skoðunarferð vestur í Bolungarvík. Það var svo í bakaleiðinni sem ógæfan dundi yfir, þegar komið var að stað í Óshlíðinni, sem nefnist Sporhamrar. Frásögn eins Þórsfélaga var á þessa lund: „Skyndilega heyrum við að ein stúlknanna, sem situr framar í rútunni, kallar til bílstjórans „að stór steinn sé að velta á bílinn. Skömmu síðar heyrðum við einhver kallaði gefðu í maður, gefðu í. Við finnum þá greinilega að bílstjórinn gefur í og okkur finnst, sem að bíllinn tæki örlítinn kipp, jafnframt því, sem bílstjórinn fer að svinga bílnum milli vegkanta. Sennilega hefur hann verið að sveigja fram hjá grjóti, sem fallið hafði á veginn."  Skyndilega, og eins og hendi væri veifað breyttist þessi skemmtiferð íþróttafólksins í mikinn harmleik. Stór steinn, sem kom á fleygiferð niður hlíðina, hafnaði aftast á bílnum og hreinlega klippti afturgaflinn úr bílnum. Steinninn, sem mun hafa vegið um það bil eitt tonn, stöðvaðist ekki heldur hélt áfram og valt fram í sjó. Vegurinn fyrir Sporhamra þar, sem slysið átti sér stað, er í um 30-40 metra hæð yfir sjávarmáli og af honum er snarbratt niður í sjó.

Steinninn lenti ofan á bílinn við öftustu sætaröðina en þar sátu sex menn. Mönnum varð strax ljóst að ástandið var hrikalegt. Tveir af þeim sex mönnum  sem sátu í öftustu sætaröðinni lentu undir  steininum og létust samstundis. Þeir sátu þeim megin í bílnum, sem snéri frá hlíðinni. Aðrir tveir menn sem sátu í öftustu röðinni slösuðust mjög mikið, en sá þriðji slasaðist lítillega og einn slapp ómeiddur. Þeir sem slösuðust mikið voru þeir Þorsteinn Svanlaugsson og Halldór Árnason.

Kristján Guðmundur Kristjánsson frjálsíþróttamaður hann fæddist 14. nóvember 1930 og var á 21. aldursári. Kristján var jarðsunginn frá Lögmannshlíðarkirkju 13. júlí að miklu fjölmenni viðstöddu. Var fjölmennið svo mikið að sagt var að aldrei áður hefði jafn fjölmenn jarðarför farið fram frá Lögmannshlíðarkirkju, og mun kirkjan ekki hafa rúmað nema nokkurn hluta fólksins. Í dagbók formanns (Sigurður Bárðarson) er ritað: „Þótt að það hafi verið stórt skarð, sem erfitt mun verða að bæta fyrir íþróttafélagið Þór, eins og ég hefi áður á minnst, þegar Kristján féll frá, þá er það þó smátt, ef athugað er það sár, sem fráfall hans hefir skilið eftir sig í fjölskyldu hans, því að það sár mun verða lengi að gróa það skilja þeir best sem best þekktu hann."

Þórarinn Jónsson knattspyrnumaður fæddist 14. ágúst 1931 og hefði því orðið 20 ára mánuði síðar.. Þórarinn var lagður til sinnar hinstu hvílu 14. júlí og fór athöfnin fram frá Akureyrarkirkju. Úr dagbók formanns (Sigurður Bárðarson): „Ég veit að allir félagar Þórs votta foreldrum Þórarins hryggð sína við missi elsta sonar síns, og systkinum hans, sem misstu nú þá fyrirmynd, sem hann var þeim, og öllum þeim, sem hann kynntist." Enn fremur  ritar Sigurður í dagbók um þá félaga: „... það má með sanni segja að Kristján og Þórarinn, sem nú eru horfnir oss í bili, hafi átt margt sameiginlegt og hafi verið öllum íþróttamönnum til fyrirmyndar, og vildi ég óska þess að allir félagar Þórs væru slíkir hófs- og (bindindis)- reglumenn og þeir voru. Þeir kunnu að sigra og bera ósigur sinn jafn vel, og þeir vissu að íþróttir eru fyrst og fremst líkamsrækt ... ".

Á þessum tíma var Akureyri lítill bær og íþróttafélagið okkar einnig lítill klúbbur og því snerti þessi hörmulegi atburður við marga, margir áttu um sárt að binda. Margir þeirra, sem í ferðina fóru átti eftir að verða máttarstólpar íþróttafélagsins Þórs í fjölda mörg ár.  Einmitt þetta fólk sá til þess að félagið náði sér á strik að nýju og smán saman varð það að því, sem það er orðið í dag. Þessi skelfilegi atburður er nokkuð sem við megum aldrei gleyma vegna þess að þessi atburður hjó stórt skarð í raðir Þórs. Heiðrum minningu þeirra sem létust og hugsum hlýtt til þeirra sem áttu og eiga enn um sárt að binda. Þetta kemur fram á vef Þórs.


Nýjast