Sektum vegna hraðaksturs hefur fækkað mikið

Á síðasta ári komu upp 758 mál vegna hraðakstus í umdæmi lögreglunnar á Akureyri og fækkaði slíkum málum um tæplega 200 frá árinu á undan. Einnig varð umtalsverð fækkun á hraðakstursmálum frá árunum þar á undan en árið 2007 komu upp 1.494 slík mál og 1.973 mál árið 2006.  

Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn segir að hraðakstursmálum hafi ekki aðeins fækkað í umdæmi lögreglunnar á Akureyri, heldur á landinu öllu. "Líklegasta skýringin er aukið eftirlit síðustu fjögur árin ásamt stórhækkuðum sektum. Síðustu fjögur ár hefur Umferðarráð styrkt sérstakt umferðareftirlit á þeim þjóðvegum þar sem slysatíðnin hefur verið mest yfir aðalumferðartímann, frá maí til setpember ár hvert. Við höfum fengið framlag til aukinnar löggæslu á Hringvegi frá Öxnadalsheiði að Víkurskarði og Ólafsfjarðarvegi að Árskógsströnd."

Daníel segir að þetta hafi gert lögreglunni kleift að stórauka eftirlit með hraðakstri á þessum vegum miðað við það sem áður var. "Greinilegt er að hraðakstur hefur minnkað á þessum vegarköflum sem og almennt. Vinnubrögðin hafa ekki breyst að öðru leiti en því að nú eru flestar eftirlitsbifreiðarnar búnar sérstökum búnaði sem tekur upp allar mælingar og því nægjanlegt að einn lögreglumaður sé við hraðamælingar auk þess sem deilum um framkvæmd mælinganna heyra nánast sögunni til. Svo virðist sem bankahrunið haustið 2008 hafi leitt til þess að menn hugsi meira um að þurfa ekki að eyða peningum í óþarfa sektir því áberandi fækkun varð í flestum málaflokkum," segir Daníel.

Nokkuð hefur verið kvartað til lögreglunnar á Akureyri vegna hraðaksturs innanbæjar, á Þingvallastræti, Glerárgötu, Hörgárbraut og fleiri götum. "Lögreglan tekur þar fjölda manna fyrir of hraðan akstur en það er aldrei hægt að koma í veg fyrir slík brot með lögreglueftirliti einu saman þar sem það getur aldrei verið samfellt allan sólarhringinn á sama stað. Til að koma varanlega í veg fyrir hraðakstur þarf að setja upp einhverskonar hindranir. Hraðamyndavélar sem færðar væru á milli staða væru ágætur kostur en þær eru dýrar og ekki á færi lögreglunar hér að setja þær upp," segir Daníel.

Aðspurður um starfsemina á þessu ári segir Daníel að engar róttækar breytingar séu fyrirsjáanlegar hjá lögreglunni á árinu og búið er að slá á frest tillögum um fækkun embætta og sameiningu lögregluliða sem til stóð að yrði um áramótin. "Mikið aðhald þarf að vera í rekstri á öllum sviðum þar sem fjárheimildir til embættisins hafa verið lækkaðar verulega og er ekki hægt að útiloka að það komi einhversstaðar niður á þjónustu lögreglunnar þótt reynt verði að koma hlutum þannig fyrir að það verði sem minnst.  Með þeirri afbrotatíðni sem nú er ætti að mega halda í horfinu svo viðunandi sé en lítið má út af bregða."

Nýjast